Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt sóttvarnaaðgerðir, hún vill að útlendingalögum sé breytt og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Hún sté til hliðar sem dómsmálaráðherra í kjölfar þess að dómur féll í Strassborg í Landsréttarmálinu og segist í grundvallaratriðum vera ósammála stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Sigríður er spurð hver henni finnst vera afrakstur núverandi ríkisstjórnar.
„Þessi ríkisstjórn var sett á laggirnar einkum og sér í lagi með það að markmiði að koma á ákveðnum stöðugleika í stjórnmálin og þingstörfin. Það var með því leiðarljósi sem við Sjálfstæðismenn tókum saman við flokk lengst til vinstri en okkur fannst nokkuð til þess vinnandi að fá þennan stöðugleika fram. Ríkisstjórnir höfðu staðið stutt við eftir hrunið og það tók okkur alllangan tíma að komst upp úr fjármálahruninu. Þannig að það var heilmikið til þess vinnandi að reyna aðeins að kæla hinn pólitíska hita sem kraumaði viðstöðulaust. Við Sjálfstæðismenn áttuðum okkur alveg á því að þetta yrði ekki tími stórkostlegra breytinga í þágu aðalmarkmiða okkar og sjónarmiða í stjórnmálum og ég var alveg búin að sætta mig við að hér yrði ekki mikið af skattalækkunum eða einkavæðingaráformum í þessari ríkisstjórn. En um leið gerðum við auðvitað kröfu um að það yrði þá ekki farið í hina áttina og skattar yrðu hækkaðir eða það yrðu búnar til nýjar ríkisstofnanir og þar fram eftir götunum. Við höfum reynt að halda í horfinu með þetta.
Ég hef nefnt það að ríkisstjórnin byrjaði ekki vel hvað stöðugleikann varðar þegar tveir þingmenn VG lýstu ekki yfir stuðningi við þessa ríkisstjórn þannig að óstöðugleikinn var skrifaður í skýin frá upphafi. Mér hefur samt fundist ágætlega hafa tekist þrátt fyrir þetta að halda friðinn. Ég reyndi nú að leggja mitt lóð á vogarskálarnar þegar ég sté til hliðar vegna þessa pólitíska upphlaups sem Landsréttarmálið var allt saman og var mál frá fyrra kjörtímabili. En ég skynjaði það að menn ætluðu sér að láta það mál snúast um mína persónu en ekki málið sjálft og ekki taka málefnalega afstöðu. Þannig að mér fannst það nú í þágu til dæmis þessa markmiðs þessarar ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað ábyrgð á. Nú er svo komið í ljós að málið er eins og önnur mál sem valda oft miklu fjaðrafoki tímabundið en er í rauninni hvorki fugl né fiskur og var alls ekki tilefni þeirrar geðshræringar sem sumir leyfðu að ná tökum á sér.“
Sigríður segir að sér finnist þess vegna ágætlega hafa tekist til í þessari ríkissjórn við að reyna að láta hlutina ganga. „Ég held að flokkarnir hafi verið heilir í því svo sem að reyna að láta þetta ganga. Auðvitað eru mönnum mislagðar hendur í því eins og gengur og gerist en það er alveg ljóst og örugglega finnst þingmönnum allra flokkanna þeirra flokkur ekki hafa fengið mikið fyrir sinn snúð. Það er alltaf þannig í stjórnarsamstarfi en þetta hefur gengið svona þokkalega.
Við stöndum núna hins vegar frammi fyrir þessum aðstæðum út af Covid-19 þar sem hlutirnir breytast mjög hratt og þarf í framhaldinu kannski svolítið aðrar áherslur heldur en bara það að hér starfi ríkisstjórn einhvers konar stöðugleika. Núna þurfa stjórnmálamenn aðeins að taka á sig rögg, stinga út hausnum í umræðunni og lýsa skoðun sinni á því hvernig menn ætla að koma sér út úr þessu ástandi sem er að skaða okkur öll dag frá degi.“
Sigríður segir að það þurfi ekki að koma neinum á óvart að hún sé auðvitað í grundvallaratriðum ósammála stefnu VG. „Innan VG eins og í öllum öðrum flokkum finnst ágætis fólk sem ágætt er að starfa með.“
Hún er spurð hverjir ættu að vinna saman ef hún réði stjórnarmynstri. Hún segir að það yrðu flokkar sem næðu að koma sér saman um framfara- og umbótaskref á Íslandi. „Það þarf að byggja upp atvinnulífið á ný og gefa fyrirtækjum í öllum greinum svigrúm til að koma sér upp á fæturna aftur og í fullan rekstur. Það blasir við að við þurfum að koma ferðaþjónustunni upp sem fyrst ef það á að vera hér einhver efnahagsbati í augsýn. Ég myndi segja að þeir flokkar sem ættu að stýra landinu næstu fjögur til átta árin séu þeir sem gætu sammælst um að gera þetta fljótt og örugglega og átta sig á að hvorki skattahækkanir né flóknar reglur eru innlegg í umræðuna næstu árin.“
„Menn nota allt sem hægt er til að að koma höggi á pólitíska andstæðinga og það þarf ekkert að koma neinum á óvart sem er í pólitík. Og ef menn geta ekki staðið í því þá eiga menn ekki að vera í pólitík.“
Sigríður segist eiga gott samstarf við alla þingmenn. „Ég er formaður í utanríkismálanefnd og þar sitja þingmenn úr öllum flokkum og ég á gott samstarf við þá. Þingmenn eru jafnólíkir og þeir eru margir. Mér finnst kannski vanta meira fyrirvaralausa umræðu á þingi um þau mál sem eru til umræðu eða þjóðmál og pólitíkina almennt. Menn koma í þingsal með ræður á blaði sem þeir lesa upp en það vantar að menn kasti boltanum á milli sín; kannski finnst sumum þingmönnum ekki vera nógu gaman á þingi. Kannski finna þeir sig ekki í því að vera að lýsa yfir málefnalegum ágreiningi við næsta þingmann. En það er einmitt hlutverk þingmanna að gera það – að opinbera að minnsta kosti skoðanir sínar og ræða við þingmenn af kurteisi og yfirvegun og auðvitað með málefnalegum hætti við þá þingmenn sem eru ekki sömu skoðunar og velta upp málunum. Mér finnst skorta þetta í þinginu.“
Sigríður hyggst gefa kost á sér fyrir næstu kosningar að ári. Hún segist ekki vita hvort það verði prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins en segist munu sækjast eftir því að vera í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eins og hún hefur verið.
„Ég hef ennþá áhuga á að starfa á þessum vettvangi enn sem komið er þótt tækifærin séu auðvitað mýmörg utan þingsins. Ég tala nú ekki um í þessu árferði sem nú blasir við þar sem það verður auðvitað mjög spennandi fyrir marga að taka þátt í uppbyggingunni sem fram undan er. Ég hef hins vegar tekið ákvörðun um að reyna að standa að baki öllu því athafnafólki sem ætlar að henda sér í það verkefni og standa vörð um frelsi þess og efnahagslíf sem getur borið það velferðarkerfi sem við viljum hafa hér á Íslandi. Þeirri öflugu heilbrigðisþjónustu sem við höfum haft verður til dæmis ekki haldið öðruvísi við en að það verði öflugt atvinnulíf hér og efnahagsbati. Hann verður að vera hraður og öruggur á næstu mánuðum. Það er alveg ljóst.“
Sigríður er í helgarviðtali Mannlífs. Hér getur þú lesið allt viðtalið.
Texti: Svala Jónsdóttir.