Sigríður Guðmundsdóttir lést af völdum krabbameins, aðeins 52 ára gömul. Hennar er minnst sem stuðbolta, ótrúlega skemmtilegri, hreinskilinni, sterkri og miklum baráttujaxli. Sigríður var borin til grafar síðstaliðinn fimmtudag.
Sigríður fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1968. Hún lést að kvöldi 23. janúar 2021 á Landspítalanum. Hún lætur eftir sig eiginmann og þrjú börn.
Sigríður ólst upp í Álftamýri til 7 ára aldurs og eftir það í Álfheimum þar sem hún bjó ásamt foreldrum sínum og systrum. Hún var 18 ára gömul þegar hún kynntist eiginmanninum, Bjarna Einarssyni, og flutti hún til hans 19 ára.
Sigríður gekk í Langholtsskóla og síðar í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist. Seinna lauk svo viðskiptafræðiprófi frá Háskólanum í Reykjavík. Lengst af starfaði hún við bókhald hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og starfaði hún einnig sem aðalbókari á skrifstofu Listaháskóla Íslands.
Við reynum að hugga okkur við fallegu minningarnar sem við eigum svo margar um hana Siggu okkar, þessa fallegu og kraftmiklu konu.
Helga, systir Sigríðar, minnist hennar með hlýjum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu. „Mikið ótrúlega er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um systur sína sem er farin einungis 52 ára gömul. Hversu óréttlátt getur lífið stundum verið. Sigga systir! Sigga systir var stuðbolti, ótrúlega skemmtileg, orðheppin, hnyttin, hreinskilin, sterk og kaldhæðin, sem kom henni til góða í baráttunni við krabbafjandann. Hún var mikill baráttujaxl og ákveðin á góðan máta,“ segir Helga
Sigríður greindist með krabbamein í annað sinn fyrir tveimur árum og þá hafði það náð í beinin. Það var ehnni og fjölskyldunni mikið áfall. „En hún tók strax þann pólinn í hæðina að hún vildi ekkert væl og kjaftæði. Hún ætlaði að hafa gaman og njóta með sínu fólki og það gerði hún svo sannarlega. Sigga systir kunni sko að skemmta sér og hafa gaman og var mikil félagsvera. Elsku Sigga systir, takk fyrir allt. Takk fyrir öll góðu ráðin og að ég hafi alltaf getað leitað til þín. Ég elska þig og mun aldrei hætta að tala um Siggu systur. Nú er baráttan búin og söknuðurinn nær óbærilegur en við ætlum ekki að leggja árar í bát,“ segir Helga og bætir við:
„Við ætlum að lifa áfram fyrir Siggu systur, hafa gaman og skála í Cava eins og Siggu einni var lagið. Skál fyrir Siggu systur! Minningarnar lifa. Þúsund kossar og knús í draumalandið þar til við hittumst aftur.“
Amma og nafna Sigríðar minnist hennar líka með hlýjum og fallegum orðum í minningargrein. „Það er ekki sanngjarnt að ég sé að skrifa minningargrein um mitt elskulega barnabarn, hana nöfnu mína. Glöð hefði ég viljað skipta við hana, en þessu ræður maður ekki. Það er ekki hægt að semja við dauðann, við stöndum bara hjá og vonum og vonum að kraftaverk verði, en þegar kallið kemur grátum við yndislega manneskju sem gaf okkur svo mikið. Við reynum að hugga okkur við fallegu minningarnar sem við eigum svo margar um hana Siggu okkar, þessa fallegu og kraftmiklu konu. Já, hún var falleg, utan sem innan, glaðvær, skemmtileg, hjálpsöm og þeirra eiginleika naut ég í ríkum mæli,“ segir Sigríður og heldur áfram:
„Stórt skarð hefur verið hoggið í stóru fjölskylduna okkar Péturs míns og eitt get ég sagt ykkur, það er ekki slæmt að verða gamall þegar maður á fjölskyldu eins og ég á. Það er svo ótal margs að minnast en læt staðar numið hér með þakklæti, elsku Sigga, fyrir alla þína ást og hjálpsemi í minn garð.“