Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Þeir sem leita að betra lífsviðurværi eiga ekki erindi inn í verndarkerfið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt sóttvarnaaðgerðir, hún vill að útlendingalögum sé breytt og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd. Hún sté til hliðar sem dómsmálaráðherra í kjölfar þess að dómur féll í Strassborg í Landsréttarmálinu og segist í grundvallaratriðum vera ósammála stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Þótti vera hörð

Sigríður segir að hún og fleiri í Sjálfstæðisflokknum hafi talað fyrir því að Íslendingar þurfi að gæta þess að loka ekki landinu fyrir fólki utan EES sem vill koma og vinna hér á landi. „Það er nokkuð sem ég tók upp í fyrri ríkisstjórninni sem ég sat í við samráðherra mína um að hefja endurskoðun á vinnulöggjöfinni hér á landi með það í huga að hingað geti komið fólk utan EES í atvinnuleit, á eigin ábyrgð en ekki fyrst í gegnum verndarkerfið.“ Atvinnuástandið getur breyst eins og til dæmis núna vegna Covid-19 þar sem atvinnuleysi hefur aukist hratt. „Þetta yrði gert í samhengi við vinnumarkaðinn á hverjum tíma og endurskoðun vinnulöggjafarinnar í þessum tilgangi þarf auðvitað að miða að því að það sé svigrúm fyrir þetta eftir því hvernig vinnumarkaðurinn er hér á hverjum tíma.“

Sigríður mælti í maí 2018 þegar hún var dómsmálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Hún sagði þá að við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, hafi komið í ljós að lagfæra, endurskoða og breyta þyrfti allmörgum ákvæðum laganna svo að framkvæmd þeirra og málsmeðferð þeirra mála sem undir þau falla væri skýr og gagnsæ. Í frumvarpinu, sem samþykkt var sem lög, var boðun umsækjanda um vernd í viðtal hjá Útlendingastofnun gerð skilvirkari. Þá voru tímafrestir á heimild umsækjanda um dvalarleyfi til að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er í vinnslu skýrðir auk þess sem tiltekið var að dvalarleyfisumsóknir sem væru í vinnslu hjá Útlendingastofnun þegar umsækjanda hefur verið brottvísað, eða tilkynnt um hugsanlega brottvísun, yrðu felldar úr gildi.

Sumum þótti Sigríður í embætti dómsmálaráðherra vera hörð þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þess má geta að ekki er búið að afgreiða frumvarp núverandi dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum og þykir sumum það frumvarp vera í takt við annað frumvarp sem Sigríður kynnti stuttu áður en hún hvarf úr embætti.

- Auglýsing -

„Það eru ýmsar lagabreytingar enn nauðsynlegar í þessum málaflokki en það hefur bara ekki náðst samstaða um það á Alþingi eða hjá ríkisstjórnarflokkunum að koma þeim í gegn. Vilji menn auka enn á skilvirkni í þágu þeirra sem þurfa á vernd að halda þá er alveg ljóst að það þarf frekari breytingar á lögum. Sú þróun sem á sér stað núna varðandi hælisleitendur gengur ekki upp til lengri tíma. Mér tókst í minni tíð sem dómsmálaráðherra að minnsta kosti að stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd frá öruggum löndum sem létti mjög á kerfinu og ég skoðaði líka ýmsa möguleika varðandi landamæraeftirlit í þessum efnum. Núna þegar í rauninni er búið að koma á landamæraeftlirliti á Íslandi vegna Covid-19 og segja má að landamærin séu lokuð, en hingað koma kannski ein til tvær vélar á dag, þá hefði mér fundist vera upplagt að nota tækifærið til þess að leita allra leiða til að stöðva komu fólks sem hyggst sækja hér um alþjóðlega vernd að tilhæfulausu, jafnvel áður en það stígur upp í vélarnar erlendis. Þannig gætum við tekið upp skilvirkara eftirlit á landamærunum. Ég vona að það sé ekki útséð með að menn geri það og nota tækifærið á hálftómum flugvöllum þessa dagana til að koma í veg fyrir tilefnislausar og tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Síðan er ESB að íhuga mikla endurskoðun á sínum reglum og í Schengen-samstarfinu og eru uppi áform um að efla enn frekar ytri landamæri Schengen-svæðisins og það er jákvætt.

Ég hef tekið eftir að það gengur svolítið hægt að flokka lönd sem örugg lönd. Við fengum til dæmis á tímabili furðulega bylgju af umsóknum um alþjóðlega vernd frá Venezuela. Auðvitað er ástandið þar hörmulegt vegna kommúnismans sem þar ríkir en í hefðbundum flóttamannaskilningi þá held ég að það séu ekki forsendur til að veita fólki frá Venezuela hæli á Íslandi.“

Sigríður segir að hún vilji að Íslendingar einbeiti sér að móttöku flóttamanna sem koma hingað eftir undirbúning og í samstarfi við Alþjóða flóttamannastofnunina og sambærilegar stofnanir sem Ísland vinnur með í þessum málaflokki. „Við getum staðið okkur vel í því og eigum að taka á móti flóttamönnum. En fólk sem er að leita sér að betra lífsviðurværi á ekki erindi inn í verndarkerfið í kringum flóttamenn og þá sem óska eftir dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða. Það er ósanngjart gagnvart þeim sem raunverulega þurfa á verndarkerfinu að halda og einnig ósanngjarnt gagnvart þeim sem hér búa og hafa fallið milli skips og bryggju í velferðarkerfinu okkar og þurfa oft að bíða lengi lausn sinna mála. Móttaka flóttafólks og jákvæð afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd, sem nú er orðin miklu umfangsmeiri en móttaka flóttafólks, er mikil áskorun fyrir velferðarþjónustuna. Það verður ekki fram hjá því horft. Við viljum standa okkur vel gagnvart þeim sem eiga rétt á þjónustu á hverjum tíma. Áhlaup á þessa þjónustu gagnast engum. “

- Auglýsing -

Umsókn um alþjóðlega vernd kallar á mikla rannsókn stjórnvalda. Það þarf að sannreyna að fólkið sé það sem það segist vera en þess má geta að sumir eru ekki með skilríki eða koma jafnvel með fölsuð eða stolin skilríki. Sigríður segir að þeir sem framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum séu ákærðir en það hefur ekki komið í veg fyrir að umsóknarferli um alþjóðlega vernd sé hætt. „Hinn langi dráttur á afgreiðslu þessara mála má oft rekja til þess að menn eru ekki samvinnuþýðir með að veita upplýsingar um hverjir þeir eru. Oft líður líka langur tími þar til niðurstaða fæst vegna þess að fólk kærir niðurstöðuna og málin ganga fram og til baka í kerfinu. Þetta þarf auðvitað að laga.

Ef fólk segist til dæmis vera frá Sýrlandi þá er gengið mjög langt í því að sannreyna það og njótum við aðstoðar erlendra rannsóknastofa í þeim efnum. Ég tala nú ekki um ef börn eru í spilinu en þá er mjög brýnt að sannreyna að börnin séu þau sem foreldrarnir segja að þau séu og að það sé hafið yfir allan vafa að barnið sé raunverulega barn fólksins sem kom með það. Það er ekki hægt að slá neitt af kröfum í þeim efnum. Þetta getur tekið tíma og útskýrir stundum þennan óhóflega langa drátt. Stundum er það þannig þegar fréttir eru fluttar af óhóflega löngum drætti á afgreiðslu einhverrar umsóknar að þá er það ekki svo; fólk hefur kannski komið til landsins á öðrum forsendum og dvalið hér á landi kannski í nokkur ár þegar það svo loks sækir um hæli.“

„Það herðir mann auðvitað að vera í pólitík. Ætli ég myndi ekki segja að það hafi komið mér á óvart hvað maður róast við hvert ruglið sem maður verður vitni að í stjórnmálunum; með hverju nýju ruglinu herðist maður og slakar því meira á.“

Börn hælisleitenda sem fæðast hér á landi verða ekki sjálfkrafa íslenskir ríkisborgarar eins og er sums staðar annars staðar. Þess má geta að í frétt á ruv.is 5. nóvember í fyrra segir: „Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi embættis Landlæknis, segir að læknisskoðanir á þunguðum hælisleitendum sé orðinn stór hluti af þeirri vinnu sem fari fram á Mæðravernd.“

„Það að umsækjandi um alþjóðlega vernd eignist barn á Íslandi á meðan málið er til umfjöllunar veitir engan sérstakan rétt sjálfkrafa, jafnvel þótt börn hafi dvalið hér í nokkur ár þótt vissulega sé litið til hagsmuna barna í hverju tilviki fyrir sig. Það þarf að vera eitthvað mjög sérstakt til að börn fái sérafgreiðslu. Það er stundum talað um að börn hafi sérstök tengsl við landið. Íslendingar eignast börn út um allan heim, dvelja erlendis við nám eða vinnu í mörg ár en það skapar ekki börnum sérstakan rétt eða þvílík tengsl við landið að það sé hægt að réttalæta það að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í einhverri stöðu þess vegna til að fá frekar vernd, eða ríkisborgararétt, vegna tengsla við landið.“

Hátt í fjórir milljarðar í hælisleitendur

Árin 2016 og 2017 streymdu hælisleitendur frá Makedóníu og Albaníu til Íslands með tilhæfulausar hælisumsóknir og var áætlaður kostnaður vegna hælisumsókna árið 2016 2,2 milljarðar króna og jókst kostnaðurinn töluvert vegna þessa hóps frá þessum tveimur löndum. Tilhæfulausar umsóknir árið 2016 voru um 60% og voru flestir í þeim hópi frá Makedóníu og Albaníu. Þessi tvö ríki teljast til öruggra ríkja og var öllum synjað um hæli að lokinni skoðun. Yfirvöld þar sögðu að þessi fjöldi fólks frá þessum löndum tengdist því að það hafi virkað hvetjandi þegar hælisleitendur fengu hér fæðispening á meðan unnið var úr umsóknum þeirra. Þeirri framkvæmd var svo breytt. Útlendingastofnun fékk svo þær upplýsingar um mitt ár 2016 að í Albaníu væri fullyrt að fólk þaðan gæti sest að á Íslandi án mikillar fyrirhafnar en fjallað var í fjölmiðlum í þessum tveimur löndum um málefni tveggja albanskra fjölskyldna með langveik börn sem Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt árið 2015 í kjölfar þess að Útlendingastofnun hafði synjað þeim um hæli.

Saso D. Andonov, ræðismaður Makedóníu hér á landi, sagði í 2. tbl. Frjálsrar verslunar árið 2017 að mikið hafi verið fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum bæði í Makedóníu og í Albaníu og stundum rangt sagt frá því hvernig kerfið virki hér á landi. „Það að fjölskyldurnar skyldu fá íslenskan ríkisborgarétt var túlkað sem merki um að íslensk stjórnvöld myndu bjóða velkomið fólk í svipuðum aðstæðum. Ég var í Makedóníu á þessum tíma og heyrði margar sögusagnir um kerfið á Íslandi en samkvæmt þeim var Ísland rétta landið til að fara til.“ Þá sagði Andonov að íslenska velferðarkerfið virkaði hvetjandi og að þessi hópur hafi einnig viljað nýta sér það að hælisleitendur hér á landi gætu safnað þeim peningum sem þeir fengju frá íslenskum stjórnvöldum meðan hælisumsókn þeirra væri tekin fyrir auk þess sem þeir fengju ókeypis húsnæði og læknisþjónustu. Í sama blaði er viðtal við Kai Blöndal, yfirlækni göngudeilar sóttvarna- og hælisleitenda. Hún sagði meðal annars að heilbrigðisþjónustan sé í rauninni fín í Makedóníu og Albaníu og að íbúar þar borgi ekki fyrir læknisþjónustu nema ef um sérfræðiþjónustu sé að ræða.

Sigríður hyggst gefa kost á sér fyrir næstu kosningar að ári. Hún segist ekki vita hvort það verði prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins en segist munu sækjast eftir því að vera í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eins og hún hefur verið.

Sigríður segir að árlegur kostnaður nú í tengslum við hælisleitendur sé hátt í fjórir milljarðar króna. „Eitt er kostnaður við hælisleitendurna sjálfa. Svo þegar þeir eru búnir að fá alþjóðlega vernd þá kemur annar kostnaður sem er ekki í þessari tölu.“ Sigríður segir að þegar fólk hefur fengið umsókn sína um vernd samþykkta fái það til dæmis húsnæðisbætur ef það fer á leigumarkaðinn. „Það er óhægt um vik fyrir íslensk stjórnvöld að kanna hvort þetta fólk eigi einhverjar eignir annars staðar í heiminum.“ Hún segist halda að það sé erfitt fyrir suma sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd að finna vinnu og fara þeir þá á einhvers konar framfærslubætur.

Mál sex manna egypskrar fjölskyldu sem sótti um hæli hér á landi vakti í haust mikla athygli. Vísa átti fjölskyldunni úr landi eftir að endanleg niðurstaða fékkst í málinu en komið var að tómum kofanum þar sem fjölskyldan hafði falið sig. Hún fékk svo vernd eftir að ósk kom upp að taka málið upp enn einu sinni. „Þau voru búin að fá mál sitt skoðað á öllum stigum stjórnsýslunnar, oftar en einu sinni, og búin að fá neitun um alþjóðlega vernd við hvert fótmál. Svo í lokin þá leggja þau fram málsástæðu sem þau sögðu nýja til að málið yrði skoðað enn einu sinni. Þetta er auðvitað vandinn í þessu kerfi, að fólk geti komið með enn aðra málsástæðu við lok ferilsins. Það á auðvitað ekki að vera hægt. Þetta hlýtur að vera til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu.“

Sigríður er í helgarviðtali Mannlífs. Lestu allt viðtalið hér

Texti: Svava Jónsdóttir. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -