Kvennaathvarfið er þakklátt almenningi en margt hefur verið um manninn í athvarfinu að undanförnu. Það margt, að vegna nálægðartakamarkana sökum Covid-19, hafa Kvennaathvarfskonur þurft að leita nýs húsnæðis.
Þær ákváðu að leita til almennings gegnum samfélagsmiðla og óska eftir hjálp við að finna tímabundið húsnæði fyrir konur og börn sem er óhætt að yfirgefa athvarfið um tíma. Kvennaathvarfið stendur almenningi augljóslega nærri hjarta því viðtökurnar voru með afbrigðum góðar.
Á Facebook síðu Kvennaathvarfsins segir:
„Kæru vinir.
Hjartans þakkir fyrir aðstoð við húsnæðisleit fyrir pop-up-kvennaathvarf. Við höfum fengið svo margar ábendingar og falleg tilboð að það er næstum því útilokað að málið komist ekki í höfn í dag.“
Sigþrúður Guðmundsdóttir, famkvæmdastýra Kvennaathvarfsins er þakklát Íslendingum.
„Það er lán okkar í Kvennaathvarfinu að þegar við óskum eftir hjálp rís upp her fólks sem vill koma til aðstoðar. Það gerðist líka núna og við fengum ótal tilboð og ábendingar um húsnæði sem við erum að vinna úr. Við vekjum athygli á því að Kvennaathvarfið er opið alla páskana eins og aðra daga og við getum alltaf tekið á móti nýjum konum og börnum í dvöl þurfi þau að flýja heimili sín vegna ofbeldis,“ segir Sigþrúður í samtali við Mannlíf.