„Þrátt fyrir álit fjölmargra lögspekinga þá hefur ekki náðst að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að nóg sé að gert með þeim fyrirvörum sem kynntir hafa verið,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu– og sveitastjórnarráðherra, í aðsendri grein á Kjarnanum. „Hefur ríkisstjórnin reynt að koma til móts við þá sem harðast hafa gagnrýnt pakkann með þingsályktunartillögu sem og fleiru sem á að taka af allan vafa um að orkuauðlindir Íslands verði undir yfirráðum Íslendinga og engra annarra.“
Sigurður segir að þrátt fyrir tilraunir ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við þá sem mestar efasemdir hafi ekki tekist að ná sátt um málið. „Segja má að umræður um orkupakkann séu hatrammar. Er það að mörgu leyti skiljanlegt enda um eitt af fjöreggjum íslensku þjóðarinnar að ræða og líklega sú auðlind sem á eftir að skipta mestu máli fyrir lífsgæði komandi kynslóða. Það er því mikilvægt að leitað sé sáttar og niðurstöðu sem almenningur trúir og treystir að gæti hagsmuna þjóðarinnar í bráð og lengd.“
Formaður Framsóknarflokksins bendir á hrunið sem rót almenns vantrausts í samfélaginu en um leið hafi fólk horft upp á Evrópusambandið taka sér stöðu með fjármála- og vðskiptavaldi. „Þótt ríflega áratugur sé liðinn frá hruni þá hefur þjóðin ekki gleymt. Sárin eru ekki gróin. Stofnanir samfélagsins, stjórnmál og stjórnsýsla, hafa ekki endurheimt traust almennings. Fólk hefur auk þess horft upp á tilhneigingu Evrópusambandsins að taka sér stöðu með fjármála- og viðskiptavaldinu gegn lýðræðinu eins og við kynntumst í Icesave-málinu og sést einnig vel í ofbeldiskenndri framkomu Evrópusambandsins gagnvart grísku þjóðinni. Það er því ekki skrýtið að íslenskur almenningur vilji hafa varan á þegar kemur að samskiptum við þetta stóra veldi sem er reyndar draumaland einstaka stjórnmálahreyfinga hér á Íslandi.“
Sigurður fer yfir stöðu stjórnmálanna og segir frá störfum sínum að undanförnu og bendir á að með sumrinu komi önnur umræða. Þannig séu Íslendingar hættir að ræða um klukkuna af sama hita og áhuga og í vetur. „Og meðan sólar nýtur mestan hluta sólarhringsins þá höfum við ekki áhyggjur af því hvort klukkan er hálf eitt eða hálf tvö á hádegi.“
Sigurður segir ríkisstjórnina hafa unnið samhent af krafti og ábyrgð. Hann þakkar ríkisstjórninni árangur vegna kjarasamninga. „Það hlýtur flestum að vera ljóst að sá árangur sem náðist með lífskjarasamningi á almennum markaði með ábyrgri og framsýnni aðkomu stjórnvalda er stórt skref í því að bæta lífsgæði á Íslandi og tryggja betri afkomu þeirra sem eru á lægstu laununum í samfélaginu. Flestum hlýtur einnig að vera ljóst að þessi árangur hefði ekki náðst án sterkrar ríkisstjórnar sem spannar litróf stjórnmálanna frá vinstri til hægri með sterkri áherslu á miðjuna.“ Ráðherra fer yfir kjarasamninga og stefnumál Framsóknarflokksins fyrir síðustu þingkosningar. „Áherslumál Framsóknar í síðustu kosningum eru áberandi í aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamninga. Fyrst ber að nefna „svissnesku leiðina“ sem felst í því að fyrstu kaupendum sé gert kleift að nýta hluta af lífeyrissparnaði sínum til að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Sérstakt baráttumál okkar í Framsókn í langan tíma, það að húsnæðisliðurinn sé tekinn út úr vísitölunni, er að verða að veruleika fyrir ný neytendalán og skref sem svo gott sem tryggja að verðtryggingin sé úr Íslandssögunni verða að veruleika á næstu misserum.“