Stjörnulögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson lætur í sér heyra eftir þátt Gísla Marteins Baldurssonar í gærkvöldi:
„Gísli Marteinn fjallaði þar á sinn sérstaka hátt um málefni KSÍ og þá nauðgunarmenningu, sem RÚV hefur ítrekað fullyrt að stjórn KSÍ hafi látið viðgangast af hálfu landsliðsmanna og með því sýnt af sér geranda meðvirkni. Gísli Marteinn gætti ekki hlutleysis í þessari umfjöllun sinni fremur en fréttastofur ríkisins gerir þegar kemur að málefnum sem góða fólkið flykkist að baki til að líta vel út.“
Og bætir við:
„Meðal góða fólksins sem Gísli Marteinn og fréttastofa Ríkisútvarpsins sjá ekki sólina fyrir er núverandi forseti Íslands. Forsetinn blandað sér með sérstökum hætti í fréttaflutning RÚV af nauðgunarmenningu innan knattspyrnuhreyfingarinnar í fréttatíma RÚV fyrir utan Laugardagsvöll fyrir leik Íslands og Rúmeníu og taldi meinta gerendur haga sér eins og fávita.
Gísli Marteinn og forsetinn segjast styðji þolendur ofbeldis. Sú virðist hins vegar ekki vera reyndin; hljóð og mynd fara ekki saman hjá þessum opinberu persónum,“ segir lögfræðingurinn skeleggi og bætir við:
„Gísla Martein má sennilega flokka sem eineltissegg – einhvers konar skólalóðarbúllý – sem hæðist meðal annars að útliti stjórnmálamanna sem hann veit að ekki eigi upp á pallborðið hjá góða fólkinu. Forseti Íslands er svo einhver mesti velgjörðarmaður starfsmanns á Bessastöðum sem í þrígang hefur áreitt samstarfsmenn sína þar á bæ og beitt þá ofbeldi. Kona sem varð fyrir atlögu þessa skjólstæðings forsetans hrökklaðist úr starfi þegar ljóst var að hann héldi starfi sínu. Það getur gerandinn þakkað forsetanum. Annar starfsmaður karlkyns og kona hans máttu þola ofbeldi af hálfu sama starfsmanns og forsetinn stendur með. Kannski hrökklast sá starfsmaður líka úr starfi nú þegar skipulagsbreytingar virðast standa fyrir dyrum á Bessastöðum, ef marka má forsetaritara.“