Sigurður Sverrisson lést á Landspítalanum í Fossvogi í dag vegna COVID-19 kórónuveirunnar, 67 ára að aldri.
Fréttablaðið greinir frá að Sigurður hafi barist við sjúkdóminn undanfarnar vikur og hafi sú barátta verið afar hörð. Allt útlit var fyrir að Sigurður myndi hafa betur í baráttunni, hann var tekinn af öndunarvél fyrir helgi og virtust horfurnar vera að batna. Sjúkdómurinn ágerðist hins vegar, með meiri þunga en áður.
Sigurður var mikill skákmaður og vel metinn í þeim hópi, auk þess sem hann var góður bridgespilari.
Sigurður missti eiginkonu sína stuttu áður en hann veiktist, Mary Pat Frick, sem lést 8. mars.
![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2020/06/91660414_10222493220658148_8711706531273375744_o.jpg)
Bróðir Sigurðar greinir frá andláti hans: „Það er með mikilli sorg í hjarta sem við í dag kveðjum ástkæran bróður. Það gerist núna svo skömmu eftir að við kvöddum okkar elsku mágkonu. Betri vini og félaga hef ég ekki getað hugsað mér. Megið þið hvíla í friði elsku Siggi bróðir og Mary Pat. Ykkar verður sárt saknað.“
Mannlíf vottar ættingjum og ástvinum Sigurðar innilega samúð.