Hreggviður Jónsson hefur ferið mikið í fréttum að undanförnu en hann er einn fimmmenninganna sem sakaðir eru um kynferðisbrot gegn Vítalíu Lazareva. Hreggviður hefur nú sagt af sér stjórnarformennsku í Veritas Capital. Í fréttum hefur fyrirtækið yfirleitt verið kallað Veritas en af þeim sökum hefur Sigursteinn Másson, eigandi Veritas ehf. sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann leiðréttir misskilninginn, fyrirtæki hans tengist Hreggviði ekki á neinn hátt
Yfirlýsing Sigursteins fyrir hönd Veritas ehf. í heild sinni:
Allir helstu fjölmiðlar landsins fjölluðu um það, föstudaginn 6. janúar og dagana á eftir, að Hreggviður Jónsson stjórnarformaður Veritas hefði ákveðið að segja af sér stjórnarformennsku og segja sig sömuleiðis úr stjórnum fyrirtækja tengdum Veritas. Ástæðan var sögð ásökun um kynferðisbrot sem kom fram í hlaðvarpsþætti og áður á samfélagsmiðlum. Í tilkynningu hans sagðist hann stíga til hliðar úr stjórrn Veritas og tengdra fyrirtækja til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi.
Það fyrirtæki sem nefnt er Veritas í yfirlýsingunni, og síðan margsinnis í fjölmiðlum, var stofnað árið 2002 og heitir réttu nafni Veritas Capital.
Veritas ehf var stofnað snemma árs 1996, sex árum áður en Veritas Capital, og var fyrsta verkefni Veritas að framleiða heimildaþættina Aðför að lögum, um hin svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmál sem frumsýndir voru í Ríkissjónvarpinu vorið 1997.
Bæði í fréttaflutningi sem og í yfirlýsingum aðila hefur nafn míns félags verið notað en ekki fullt nafn viðkomandi félags sem er villandi og er það tilefni þessarar yfirlýsingar.