Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Sigurþóra finnur fyrir sorginni í öllum líkamanum: „Ótrúlega sorgmædd að hann fékk ekki að lifa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þennann málshátt fékk ég í litla páskaegginu í gær þegar við héldum aðalfund Bergsins, sem varð til í minningu um drenginn minn. Kannski mætti endurorða það og segja að meyrt er móðuhjartað því ég er svo sannarlega meyr í dag. Í dag eru 5 ár frá því að drengurinn minn dó. Ég vaknaði í morgun svo óumræðanlega sorgmædd. Svona sorgmædd að mér fannst ég lömuð. Svona getur sorgin verið. Hún leggst á mann án þess að maður geti rönd við reist.

Í dag ætla ég að leyfa sorginni að vera með mér, leyfa mér að gráta og sakna og finna hana í öllum líkamanum. Líka vera þakklát og muna og elska.

Á morgun verður allt betra – ég veit það af reynslunni. Eina leiðin er að leyfa sorginni að koma, heilsa henni, viðurkenna hana og leyfa henni að vera með mér og fara svo sína leið þangað til næst.

Knús á ykkur öll.“

Málshátturinn sem Sigurþóra fékk.

Þessa færslu er að finna á Facebook síðu Sigurþóru Bergsdóttur sem missti son sinn sem féll fyrir eigin hendi fyrir fimm árum síðan, í dag. Bergur Snær Sigurþóruson svipti sig lífi eftir að hafa orðið fyrir misnotkun og áföllum af hendi níðings.

Það er erfitt að lýsa tilfinningunni við að missa barnið sitt, en Sigurþóra reynir þó. „Ég er aðallega sorgmædd yfir fráfalli Bergs, ég hef ekki verið tiltakanlega reið. Bara svo ótrúlega sorgmædd yfir því að hann fékk ekki að lifa.“

- Auglýsing -
Bergur Snær var myndarlegur, ungur maður. Blessuð sé minning hans.

Sjarmeraði miðaldra konur

Bergur var glæsilegur ungur maður eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.  Sigurþóra tekur undir það. „Já hann var fallegur og hann kunni að nota það stundum. Hann hafði til dæmis alveg sérstakan hæfileika að sjarma miðaldra konur!“ segir Sigurþóra og brosir við minninguna.

„Bergur var glaður og góður drengur, honum var mikið í mun að láta fólki líða vel. Hann var mjög góður í mörgu, sérstaklega öllu líkamlegu, frábær á skíðabretti og slíku. Hann gat verið mjög utan við sig og margar fyndnar sögur af því, en bara ósköp blíður og góður drengur sem þótti vænt um fólk. En hann hafði líka mikið keppnisskap og kunni því illa að tapa,“ segir Sigurþóra um drenginn sinn.

- Auglýsing -

Kerfin og biðin mannskemmandi

Aðspurð um hvort kerfið hafi brugðist Bergi svarar Sigurþóra því játandi. „Saksóknari brást en líka kerfin sem eiga að hjálpa. Hann fékk fullt af hjálp en einhvern vegin passaði ekkert fyrir hann. Kerfin eru svo aðskilin, það er ekkert samræmt kerfi sem grípur og heldur utan um ungmenni. Svo er líka alltaf þessi bið eftir hjálp sem hentar sérstaklega illa fyrir þennan hóp. Fyrir ungmenni er á þessum aldri virkar ein vika miklu lengri en þegar maður verður eldri, hvað þá mánuðir, í vanlíðan, á biðlista eftir hjálp.“

Sigurþóra segir að kerfið þurfi að skilgreina allt. „Þessi meðferð er við fíkn, önnur meðferð er við kvíða, enn önnur við einhverju öðru, það er alls staðar löng bið og ekkert samband virðist vera á milli aðila. Það á ekki að skipta máli hvað er að, maður vill bara fá góða hjálp. Ég vil setja fólk í miðjuna, ekki kerfið eða flokkunina. Núna er til dæmis margra mánaða bið eftir sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni og jafnvel áralöng bið eftir átröskunarmeðferð og áfallameðferð til dæmis. Algerlega fáránlegt.“

Bergið hjartans mál

Sigurþóra kveðst hafa viljað notað kraft og áhuga allra í kringum sig til að grípa til aðgerða og gera eitthvað til að aðstoða ungmenni. Í kjölfarið var tóku hún og fleiri sig til og stofnuðu Bergið af miklum myndarskap.

Bergið er hennar hjartans mál. „Upphaflega stóð til að opna meðferðarúrræði en þegar ég fór að kanna málið betur sá ég að þegar voru til staðar mörg úrræði fyrir ungt fólk í vanda. Eins og ég sagði, starfið er gott en hugmyndafræðin innan kerfisins er að hólfa vandamál niður og því verður þjónustan afar sérhæfð.

Því ákváðum við að til Bergsins væri unnt að leita við minni tilefni og grípa inn í áður en vandinn er orðinn of mikill.“

Bergið er staðsett að Suðurgötu 10 í Reykjavík.

Bergið er staðsett að Suðurgötu 10 og þangað getur ungt fólk mætt eða bókað tíma hjá ráðgjafa og fengið viðtal. Bergið býður upp á ókeypis þjónustu fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri á þeirra eigin forsendum, án skilyrða og þröskulda. „Við erum með með góð tengsl við önnur úrræði. Ef vandinn er stór og flókinn, getum við hjálpað fólki að finna leið,“ segir Sigurþóra.

Veit að við höfum hjálpað

Sigurþóra vill trúa því að Bergið hefði hjálpað Bergi hefði slík þjónusta verið til staðar áður en hann lést. ,,Maður veit auðvitað aldrei en við erum alla vega búin að hjálpa mörgum veit ég, ungu fólki sem hafði ekkert aðgengi að aðstoð áður.“

Sigurþóra segir að einnig sé boðið upp á fjarþjónustu með aðstoð Kara Connect, þar sem hægt er að fá fund hjá ráðgjafa í gegnum fjarfundabúnað. „Slíkt getur til dæmis hentað þeim sem búa úti á landi,“ segir Sigurþóra, sem jafnvel á þessum erfiða degi er reiðubúin að ræða Bergið og úrræði fyrir ungmenni enda brennur hún fyrir málefninu.

Börnin útbrunnin

Að sögn Sóveigar Þorvaldóttur hjá Berginu er meðalaldur þeirra sem þangað leita 19 ára en börn allt niður í 12 ára gömul hafi komið og leitað sér aðstoðar. Aðspurð segir hún vandamálin vera af ýmsum toga en oftar en ekki sé verið að grípa ungmenni áður en þau lendi á braut frekari erfiðleika.

„Sem dæmi megi nefna sjáum við mikið af ungmennum sem hafa þurft að takast á við gríðarlega ábyrgð á unga aldri, oft vegna andlegra veikinda eða fíknar foreldra. Mörg þeirra þurftu að reka heimili og sjá um uppeldi yngri systkina frá barnsaldri og eru einfaldlega útbrunnin. Þarna vil ég að mörgu leiti kenna skólakerfinu um, það er ekki að grípa inn í þegar þau verða vör við aðstæður barnanna.

Aðrir koma vegna eineltis kvíða og alls kyns andlegrar vanlíðunar. Við viljum ítreka að við erum hér til staðar fyrir þau og eru þau ávallt velkomin.“

Allar nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Bergsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -