Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður, sem rekur veitingastaðina Barion í Mosfellsbæ og á Granda og Hlöllabáta, auk Minigarðsins í Skútuvogi, segir í viðtali við Morgunblaðið að tími sé kominn til að stytta afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða.
„Það er hægt að bölsótast út í kórónuveiruna út af mörgu. En það sem er jákvætt við hana er þesssi breyting á skemmtanamenningunni hér á landi, þar sem við erum farin að fara fyrr út að skemmta okkur en áður,“ segir Sigmar. „Ég held að það sé ekki vitlaust fyrir okkur sem samfélag að sæta nú færis og stytta almennt afgreiðslutíma skemmtistaða. Þannig gætu leyfi sem gera ráð fyrir því að hægt sé að hafa opið til klukkan fimm um morguninn, færst til klukkan þrjú, og þau leyfi sem gera ráð fyrir að opið sé til klukkan þrjú, myndu gilda til klukkan eitt í staðinn.“
Samkomubannstakmarkanir sem nú eru í gildi heimila veitingastöðum, skemmtistöðum, krám og spilasölum að hafa opið til kl. 23.
Sigmar segir að fátt gáfulegt gerist hjá fólki í skemmtanalífinu eftir klukkan þrjú á nóttunni. Flestir geti verið sammála um það. Hann telur að styttri afgreiðslutími geti sparað samfélaginu peninga, bæði í löggæslu, í bráðamóttöku og á fleiri sviðum.
„Ég tel að þetta sé hagkvæmt að því leyti að hagvöxtur getur aukist. Ef fólk skemmtir sér ekki langt fram undir morgun, þá vaknar það fyrr daginn eftir skemmtanahald og er virkara í samfélaginu þann daginn. Þótt ég sé ekki mikið fyrir forsjárhyggju tel ég að þetta sé mjög verðugt umræðuefni,” segir Sigma rog bætir við að flestir kollegar hans sem hann hefur rætt við í veitingageiranum séu honum sammála. Hann segir fyrirkomulagið einnig geta verið gott fyrir veitingamenn, minnki álag á starfsfólk, auki hagræðingu í rekstri sem gefi færi á verðlækkun.
„Við vorum neydd út í að hafa styttri afgreiðslutíma út af heimsfaraldri og svo reynast allir vera bara sáttir. Ég held að það sé dauðafæri á því núna að opna umræðuna um þetta mál.“
Aðspurður segist hann aldrei myndu reka veitingastaði sem hafi opið til klukkan fimm á morgnana. „Ég hef ekki áhuga á slíkum rekstri. Við sem bransi verðum núna að þjappa okkur á bak við þessa kúltúrbreytingu og reyna að örva hana. Það er miklu betra að láta ballið byrja klukkan tíu en klukkan hálftólf.“