Mánudagur 13. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sirrý hefur séð inn í heim fátækasta fólks heimsins: „Vantar nokkra sentimetra að komast í splitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrrum sjónvarpskonan Sirrý Arnardóttir var undir stækkunargleri Mannlífs í vikunni.
Sirrý þarf vart að kynna fyrir landsmönnum en hún starfaði í fjölmiðlum í 30 ár og var á þeim tíma meðal annars með sjónvarpsþáttinn Fólk með Sirrý, sem eflaust margir muna eftir.

Sirrý hefur nú sagt skilið við fjölmiðla, en hún starfar í dag sem stjórnendaþjálfari, skrifar bækur og kennir við Háskólann á Bifröst.

Mannlíf komst að því að Sirrý er dugleg að minna sig á kosti sína og segir það nauðsynlegt í samfélagi sem okkar, hana dreymir um að fá að verða amma einn daginn og svo finnst Sirrý íslenska þjóðin vera of fljót að gleyma og sætta sig við óréttlæti og ójöfnuð.

Sirrý Arnardóttir

Fjölskylduhagir? Gift og á tvo uppkomna syni og tengdadætur.

Menntun/atvinna? Menntuð í félags- og fjölmiðlafræði og starfaði í fjölmiðlum í 30 ár en er stjórnendaþjálfari í dag, skrifa bækur og kenni við Háskólann á Bifröst.

Uppáhalds Sjónvarpsefni?  Nýtt efni frá Norðurlöndum er það besta sem ég veit í sjónvarpi. Dönsku Mattador þættirnir eru svo algjör klassík. Afteshowet á DR1 er besti dægurmálaþátturinn í Sjónvarpi. Kristjana Arnardóttir á RÚV er uppáhalds sjónvarpskonan mín.

- Auglýsing -

Leikari? Kristján Franklín og líka danska leikarastéttin í heild sinni.

Rithöfundur? Halldór Kiljan Laxness.

Bók eða bíó? Bæði. Bókin fyrst svo vil ég sjá bíómyndina á eftir.

- Auglýsing -

Besti matur? Hollur matur, litríkur, einfaldur, ferskt hráefni.

Kók eða Pepsí? Hvorugt. Nema í bíó vel ég Kók með poppinu.

Fallegasti staðurinn?  Þingvellir.

Hvað er skemmtilegt?  Að eiga sálufélaga og fá að vera með honum flesta daga og nætur. Geta þagað og spjallað með sálufélaganum um allt og ekkert. Að ræða við vinkonur er skemmtilegt. Að rækta gúrkutré og klippa gúrkur af plöntunni og beint í salatið er skemmtilegt. Líka að rækta garðinn sinn, elda góðan mat, dansa tangó, spjalla í heitu pottunum, teygja sig og toga í yoga, að ganga í skógi er skemmtilegt, að liggja í hengirúmi og lesa er skemmtilegt, að fara í langan göngutúr með BBC í eyrunum er skemmtilegt. Golf er skemmtilegt. Vinnan mín er skemmtileg. Að gera svona lista er skemmtilegt.

Hvað er leiðinlegt? Að þurfa að vakna snemma en geta ekki sofið af ótta við að geta ekki sofið nóg og vera vakandi af stressi yfir því að vera ekki sofandi.

Hvaða flokkur? Ég er með valkvíða.

Hvaða skemmtistaður? Sundlaugar.

Kostir? Ég hef marga kosti og legg áherslu á að minna mig á þá – því samfélagið er drifið áfram af því að minna okkur á að við erum ekki nóg, ala á óánægju okkar með okkur sjálf svo við kaupum meira og verðum betri neytendur. Því gef ég mér reglulega H(rós) og minni mig á kosti mína. Til dæmis að ég er skapandi, ég er lausnamiðuð, ég tala skýrt, ég er barngóð, ég er liðug, ég sé fyrst það góða við fólk, ég á auðvelt með að hrósa öðrum. Ég er sjálfstæð.

Lestir?  Ég er lengi að fara á fætur, fæ kikk út úr því að dorma. Ég er vandræðalega léleg í stærðfræði.

Hver er fyndinn? Mér finnst börn rosalega fyndin. Ég les til dæmis oft viðtöl við börn á barnasíðum fjölmiðla því mér finnst þau oft svo fyndin og skemmtileg. Helga Braga og Edda Björgvins eru líka mjög fyndnar.

Hver er leiðinlegur? Appelsínugulur trumpur.

Trúir þú á drauga? Já fortíðardrauga. En þá er hægt að kveða niður með sjálfsskoðun og vinnu.

Stærsta augnablikið? Þegar synir mínir, Haraldur Franklín og Kjartan Franklín, fæddust.

Mestu vonbrigðin?  Það sem hefur valdið mér vonbrigðum hefur í raun oft orðið til góðs. Til dæmis ef ég hef ekki fengið eitthvert starf eða tækifæri sem ég óskaði eftir, og hef orðið spæld, hefur það gjarnan orðið til þess að eitthvað miklu betra býðst stuttu síðar.

Í stærra samhengi má nefna að það olli mér vonbrigðum að ekki breyttist meira en raunin varð eftir bankahrunið. Panamaskjöl og rannsóknarskýrslur hefðu átt að hafa meiri áhrif. Við erum of fljót að gleyma og sætta okkur við óréttlæti og ójöfnuð, því miður.

Hver er draumurinn? Að fá einhvern tímann að verða rosalega skemmtileg amma.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári?
Við öll höfum unnið það afrek að halda jafnaðargeðinu og bjartsýninni þrátt fyrir heimsfaraldur og önnur leiðindi sem hafa dunið á okkur. Og ég persónulega náði að verða opnari gagnvart tækninni og þróa leiðir til að kenna ,,Framsækni – örugga tjáningu” og ,,Fjölmiðlafærni” mikið til í fjarkennslu. Og að halda fyrirlestra, umræður og námskeið í gegnum Teams. Ég hefði ekki séð þetta fyrir og hefði ekki haft frumkvæði að þessu nema af því að það var ekkert annað í boði.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Það vantar enn nokkra sentimetra í að komast í splitt. En annars þá er ég ekkert mikið fyrir markmiðasetningu. Mér finnst við stundum gera markmiðasetningu of hátt undir höfði. Það getur verið betra að vera í flæðinu. Lifa í núinu en vera opinn og í góðu orkuflæði og treysta.

Manstu eftir einhverjum brandara? Já mörgum. En það er þetta með tjáninguna, sumt er betra að sýna og leika en skrifa.

Vandræðalegasta augnablikið? Æ vandræðaleg augnablik eru bara leið til að stækka þægindarammann og engin ástæða til að velta sér upp úr vandræðagangi. Að fá blackout í beinni útsendingu, ganga of snemma fram á svið sem kynnir á tónleikum, buxurnar rifna þegar ókunnur maður lyftir undir rassinn á manni í klettaklifri,…þetta er bara partur af því að fara út fyrir þægindahringinn og vera manneskja. 😊

Sorglegasta stundin? Að sjá afleiðingar heimilisofbeldis, ofdrykkju, andlegra veikinda og fjárhagsáhyggja. Þetta hef ég séð bæði nærri mér og líka í störfum mínum og framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Ég hef séð inn í heim fátækasta fólks í heiminum, hef séð eymd heimilislausra í Bandaríkjunum þar sem ég vann á sjónvarpsstöð í Missouri, ég fór fyrir Unicef til Kenýa að gera söfnunarþátt fyrir fátæk börn og það var margt sorglegt. Að sjá erfiðleika nærri mér hefur líka verið mjög sorglegt. En sem betur fer eru mörg úrræði og sorg hefur oft breyst í sigra.

Mesta gleðin? Að sjá börnin sín njóta sín og vera góðar manneskjur.

Mikilvægast í lífinu? Að iðka þakklæti, sjá fegurðina í hvunndeginum og elska fólk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -