Þeir sem hafa lent í því að blóðmaur eða blóðmítill hreiðri um sig á húðinni vita hve erfitt það getur verið að losa sig við maurinn.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá nákvæmlega af hverju blóðmaurarnir sitja sem fastast þegar þeir komast í gómsætt fæði, það er blóð. Munnur þeirra er nefnilega hannaður til að festa sig við húðina, jafnvel svo dögum skiptir.
Í munni blóðmauranna eru tveir krókar sem hvor um sig er með þrjá króka, og virðast þeir nota hreyfingu sem minnir á bringusund til að komast inn fyrir húðina. Út af þessu er víst best að nota flísatöng til að losa maurana af húðinni, frekar en að reyna að hrista þá af sér.
Sem betur fer er nánast enga blóðmaura að finna á Íslandi, þó þeir hafi gert vart við sig í örfá skipti hér á landi. Hins vegar finnast þeir víða í Evrópu og hafa gert mörgum ferðalöngum lífið leitt.