„Hingað komu iðnaðarmenn með tæki og tól, og bara fólk sem var tilbúið að bera hérna niður níðþung tæki úr sýningarklefa og farga, rifu hérna niður innréttinguna eins og herforingjar,“ sagði Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar í samtali við Fréttastofu RÚV í hádeginu þar sem fjallað var um viðbrögð velunnara Bíós Paradísar við beiðni bíósins um sjálfboðaliða til að koma húsnæðinu í stand fyrir opnun þess í september. „Þetta var bara stórkostlegt,“ bætti hún við.
„Við höfum ekki gert neitt til að bæta aðstöðuna okkar sem var orðin mjög lúin, þetta húsnæði var í niðurníðslu þegar við fluttum hérna inn fyrir tíu árum,“ segir Hrönn í samtalinu og bætir við að hún hafi ekki verið tilbúin að reka bíóið áfram í þessu ástandi. Bíóinu var lokað í janúar og leit út fyrir að ekki yrði unnt að halda starfsemi þess áfram en í júlíbyrjun var rekstrargrundvöllur þess tryggður og fyrirséð að hægt verður að halda rekstrinum áfram. Hrönn segir að ríki og borg hafi náð saman um að hækka fjárframlög til Bíósins og einnig hafi leigusalinn, Karl Mikli ehf, komið til móts við félagið varðandi leiguverð.