Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Sjálfboðaliði í Hlaðgerðarkoti á gamlársdag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Theódór Gunnar Smith matreiðslumaður mun vinna sem sjálfboðaliði á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti á gamlársdag og fram á gamlárskvöld en það gerði hann einnig á aðfangadag.

Theódór Gunnar er vanur að vinna sjálfboðaliðastörf fyrir Hlaðgerðarkot og hjá Mæðrastyrksnefnd og þetta árið eldaði hann einnig jólamatinn fyrir Konukot. Theodór, sem fékk hjálp á Hlaðgerðarkoti fyrir rúmu ári síðan, segist trúa á karma og að hann upplifi þá eitthvað gott í staðinn.

Hann fór fyrst fyrir tveimur árum og aftur fyrir rúmu ári í meðferð á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti þar sem fólk fer í áfengis- og vímuefnameðferð á vegum Samhjálpar og segist hann því hafa mikla og góða tengingu við staðinn. Hann er hættur allri neyslu og varð trúaðri í gegnum þessa reynslu og gekk í Fíladelfíu í kjölfarið. Sjálfboðaliðastörf og það að láta gott af sér leiða hefur verið hluti af lífi hans síðan.

Síðastliðin ár hefur hann unnið sem kokkur í grunnskóla. Eitt árið fékk hann til dæmis þá hugmynd að fá nemendur í skólanum þar sem hann vinnur til að elda meðal annars indverskan pottrétt og fiskrétt í desember og seldu þeir foreldrum nemenda í skólanum sem „take away“ og rann peningurinn til Mæðrastyrksnefndar.

„Ég hef eldað matinn á aðfangadag í Hlaðgerðarkoti tvenn jól áður en í ár matreiddi ég einnig fyrir dömurnar á Konukoti á aðfangadag. Í ár verð ég núna einnig á Hlaðgerðarkoti á gamlársdag í fyrsta skipti,“ segir Theodór en þeir verða tveir í eldhúsinu í sjálfboðaliðastörfum þennan dag og elda fyrir rúmlega 30 manns.

Humar og hamborgarhryggur

Theódór segir að hann muni á gamlársdagsmorgun undirbúa kvöldmatinn fyrir fjölskylduna. „Ég fer upp í Hlaðgerðarkot um ellefuleytið og græja allt þar. Fólkið þar borðar kvöldmatinn snemma, eða um fimm- til sexleytið, og verður hamborgarhryggur og pörusteik í matinn og ætla ég að vera með humarsúpu; fólkið þar er búið að biðja um humarsúpu í forrétt. Við Ívar Guðjóns, sem aðstoðar mig, verðum örugglega þar til um átta en við ætlum svo að fá flugeldasölu til að styrkja okkur um nokkra flugelda og skjótum upp áður en við förum. Fólkið sem dvelur á staðnum verður svo með nokkra flugelda sem það mun skjóta upp á miðnætti.

- Auglýsing -

Birgjarnir sem ég versla við í vinnunnu hafa alltaf styrkt mig um hráefni þegar ég hef leitað til þeirra þegar ég er að sinna sjálfboðaeldamennsku sem er algjör snilld.“

Theódór, sem á konu og börn, segir að hann verði svo kominn heim um hálfníu og þá borði hann með fjölskyldunni sem bíður eftir honum. „Ég verð enga stund að græja matinn en konan setur allt í gang.“

Trúir á karma

- Auglýsing -

Theódór segir að sér finnist mikilvægt að vera til staðar fyrir skjólstæðingana í Hlaðgerðarkoti eins og aðrir voru þar til staðar fyrir hann þegar hann dvaldi þar á sínum tíma. Hann segir líka vera mikilvægt að starfsmenn í eldhúsi Hlaðgerðarkots fái frí yfir hátíðirnar.

„Það þarf einhver að gera þetta,“ segir hann og á við eldamennskuna. „Ég trúi á karma. Það er eiginlega bara gott karma að gefa af sér og þá fær maður þetta til baka; ég trúi því að ef ég geri eitthvað gott þá fæ ég góða orku í staðinn – sama hvort það tengist umferðinni eða fólki í kringum mig. Þetta helst allt í hendur.“

Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari.

Theódór segir að sér finnist vera gott að vera hinum megin við borðið þegar kemur að Hlaðgerðarkoti.

„Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari. Það er ekki annað hægt en að vera í góðu skapi þegar maður gefur af sér. Það skiptir máli að vera góð hvert við annað og vera jákvæður; það er lykillinn. Þegar ég geri eitthvað gott fyrir aðra líður mér vel og langar að gera meira af því. Það skiptir líka máli að bera virðingu fyrir öllum í okkar samfélagi, sama hvar þeir eru staddir hverju sinni. Svo kem ég bara heim á gamlaárskvöld í súpergóðu skapi og tek fagnandi á móti nýju ári í faðmi fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -