Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Sjálfskaparvíti stjórnvalda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

„Þetta var aldrei að fara öðruvísi. Leiðtogar hinnar róttæku verkalýðshreyfingar, hvar formaður Eflingar fer fremst í flokki, höfðu lítinn áhuga á að ná kjarasamningum. Tilgangurinn hefur fremur verið að sækjast eftir átökum og verkföllum með pólitísk markmið að leiðarljósi. Nú er það að raungerast.“

Svona hljómar byrjunin á hádramatískum leiðara sem birtist í Fréttablaðinu fyrir nokkru. Þar kennir höfundurinn „vanstilltri“ forystu verkalýðshreyfingarinnar um stöðuna sem nú er komin upp í kjaraviðræðum en minnist ekki einu orði á svolítið annað sem skiptir sköpum í því samhengi: ástæðurnar fyrir því af hverju þessir marxísku byltingarsinnar og lýðskrumarar, svo vísað sé til orða hans, fengu rífandi meðbyr og komust til valda. Það gerðist nefnilega ekki í einhverju tómarúmi, við skulum alveg átta á okkur á því.

„Það er nefnilega sjaldnast þannig að „byltingarsinnar“ og „lýðskrumarar“ komist til valda að ástæðulausu.“

Um langt skeið hefur venjulegu íslensku launafólki verið talin trú um að hér sé lítið svigrúm til launahækkana og kjarabóta. Að ekki sé hægt að rétta við hlut fólks svo einhverju nemi, síst þeirra lægst settu í samfélaginu, því þá fari hér beinlínis allt til fjandans. Á sama tíma hefur almenningur í landinu hvað eftir annað þurft að horfa upp á gegndarlausar launahækkanir til launahárra hópa: lækna, dómara, þingmanna, ráðherra, aðstoðarmanna ráðherra og nú síðast til æðstu stjórnenda fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins.

Þegar einhver hefur svo mikið sem vogað sér að benda á misræmið hefur ekki vantað svörin. Laun lækna varð að hækka í samræmi við launin á hinum Norðurlöndunum svo hér yrði ekki landflótti sérfræðilækna og heilbrigðiskerfið legðist í rúst. Laun þingmanna og annarra embættismanna varð að hækka með hliðsjón af því sem gerist í nágrannalöndunum og ekki gátu stjórnendur fyrirtækja í ríkiseigu, með þeirri gríðarlegu ábyrgð sem því fylgir, setið eftir. Það hefði verið ómannúðlegt.

Skítt með það þótt fyrirtækjunum væri misvel stýrt eða að seinna kæmi í ljós að hér væru læknar almennt með hærri laun en tíðkaðist á Norðurlöndunum. Og skítt með það þótt þingmenn væru þegar búnir að fá 7,15 prósenta launahækkun skömmu áður en þingfararkaup þeirra var hækkað um tugi prósenta. Í hinu stóra samhengi var það aukaatriði.

Margsinnis hefur verið bent á að þessar aðgerðir gætu haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Að með þeim væri meðal annars verið að senda út þau skilaboð að hér væri svo bara svigrúm til launahækkanna eftir allt saman, þær væru hins vegar ekki í boði fyrir alla, aðeins útvalda. Að þær myndu grafa undan trausti, skapa tortryggni og ýta undir óróa á vinnumarkaði.

- Auglýsing -

Og margsinnis gafst æðstu embættismönnum landsins tækifæri til að bregðast við, þó ekki væri nema með því að afþakka fyrrnefnda tugprósenta launahækkun í eigin vasa, eða afturkalla tugprósenta launahækkanir ríkisforstjóra, en í staðinn kusu þeir að leiða viðvörunarbjöllurnar hjá sér. Já, hvað eftir annað.

Hvort kröfur forystu verkalýðshreyfingarinnar eru raunhæfar skal ósagt látið, en ofangreint er hins vegar ágætt að hafa í huga þegar leita á sökudólga fyrir stöðunni sem komin er upp. Það er nefnilega sjaldnast þannig að „byltingarsinnar“ og „lýðskrumarar“ komist til valda að ástæðulausu. Langvarandi gremja vegna mismununar er eitt af því sem hjálpar til. Það hefur gerst hér. Í boði ráðamanna þjóðarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -