Sjálfstæðisflokkurinn er við hrun í Reykjavík og mælist vera fimmti stærsti stjórnmálaflokkurinn í borginn. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn mælist núi með aðeins 10,3 prósent fylgi í höfuðborginni. Samfylkingin ber höfuð og herðar yfir aðra flokka og mælist langstærst með 29,9 prósent. Miðflokkurinn, Viðreisn og Píratar mælast allir hærri í könnuninni en Sjálfstæðisflokkurinn. Miðflokkurinn fengi 10,8 prósent, Píratar 11,5 prósent og Viðreisn 12,3 prósent. Sósíalistaflokkurinn er með rúmlega 5 prósenta fylgi en Vinstri-grænir eru með rúmlega 4 prósent.
Hrun á fylgi sjálfstæðismanna í Reykjavík er enn meirta en það sem flokkurinn glímir við á landsvísu þar sem nýjasta mæling sýnir hann vera innan við 14 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er átakanlega lágt í því ljós að flokkurinn var lengst af með 40-60 prósenta fylgi og hreinan meirihluta á stundum. Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, birtir í dag grein í Mogganum þar sem hann gefur minnihluta Sjálfstæðisflokksins og forystu Hildar Björnsdóttur falleinkunn.
„Ljóst er að staða Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn er óviðunandi. Fylgið hefur um nokkurt skeið verið í lágmarki, eða í kringum 20%. Um þessa stöðu ritaði ég grein í Morgunblaðinu 8. ágúst sl. Í þeirri grein hvatti ég borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins til að endurskoða vinnulag sitt,“ skrifar Vilhjálmur.
Hann segir stöðu flokksins vera óviðunandi í alla staði. Það gerist þrátt fyrir að borginni sé illa stjórnað af núverandi meirihluta.
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða að gera sér grein fyrir því að núverandi vinnulag þeirra er ekki líklegt til að færa Sjálfstæðisflokknum aukin áhrif á vettvangi borgarstjórnar. Betur má ef duga skal,“ skrifar Vilhjálmur og vill að borgarfulltrúar setji í sig hrygg og fundi með borgarbúum til að reifa sín stefnumál.
.