Flestir geta eflaust verið sammála um að það að hafa hreint og snyrtilegt í kringum sig gerir einhvern veginn allt töluvert betra. Fátt er leiðinlegra en að koma heim eftir langan dag og heimilið er á hvolfi. Ástandið getur orðið yfirþyrmandi mjög fljótt. Hér eru nokkur ráð sem hjálpa til við að koma í veg fyrir slíkt og halda heimilinu í ágætis ásigkomulagi.
Að eiga minna!
Um leið og það er minna af dóti á heimilinu er minna dót sem býr til drasl. Þá er mjög gott, í sama tilgangi, að hafa í huga að eiga ekki mikið af hlutum.
Hentu smádóti (drasli) jafnóðum
Þótt maður reyni að vera meðvitaður um að kaupa ekki óþarfa eða sanka að sér drasli þá er ótrúlegt hversu fljótt þetta safnast saman. Sérstaklega þegar maður á börn. Hver kannast ekki við „einnota“ dót eins og finnst í Kindereggi eða barnaboxunum á veitingastöðum. Þetta á líka við um uppþornaða og brotna liti, prufur af hinu og þessu, auglýsingabæklinga og svo framvegis. Beint í ruslið. Við treystum okkur til að fullyrða að þú komir ekki til með að sakna þessara hluta.
Einnar mínútu reglan
Hún er einfaldlega þannig að ef eitthvað sem þarf að gera tekur innan við eina mínútu – gerðu það þá strax. Litlir hlutir eins og að hengja upp peysuna sína, raða útiskónum, setja Cheerios-pakkann inn í skáp. Þetta eru allt hlutir sem er kannski freistandi að bíða með að gera, en þegar þú veist að þetta tekur hvort eð er minna en eina mínútu er erfitt að réttlæta fyrir sér að gera þá ekki.
Komdu þér upp rútínu
Til dæmis að fara alltaf út með ruslið eftir kvöldmat og ryksuga á föstudögum. Það tekur kannski smátíma, en um leið og það er komið í rútínu að gera alltaf eitthvað á sama tíma hættir það að vera kvöð. Svo er að sjálfsögðu frábært að skipta verkefnum á milli fjölskyldumeðlima þannig að hver og einn hafi alltaf sitt hlutverk.
Dreifðu huganum
Þegar fjallið af hreinum þvotti er orðið yfirþyrmandi er gott að drösla öllu fram í sófa, kveikja á góðum þætti, brjóta saman þvottinn og gleyma sér á meðan.
Hafðu alltaf kassa/poka í geymslunni …
… í þvottahúsinu eða inni í skáp. Einn fyrir föt og annan fyrir dót sem þú ætlar að gefa. Svo tekur enga stund að skutla pokanum í fatagám eða á nytjamarkað.
Bjóddu fólki í heimsókn!
Það er líklega mesta hvatningin fyrir marga að taka til þegar von er á gestum.