Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sjóbókin fékkst afhent – Ekkert skrifað um Covid fyrr en á leið í land – „Einhver pest í gangi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjódagbók frystitogarans Júliusar Geirmundssonar ÍS fékkst loks afhend fyrir héraðsdómi í gær eftir að lögmenn skipstjórans og útgerðarinnar höfðu hafnað því að afhenda bókina á grundvelli persónuverndar. Samkvæmt heimildum Mannlífs vakti athygli hversu lítið er þar fjallað um Covid-hópsmitið og veikindi skipverjanna fjölmörgu eftir að veiran hafði grasserað um borð í þrjár vikur. Það var ekki fyrr en á 21. degi túrsins sem orðið Covid kemur fyrir, fram að því hafði verið skrifað að um borð væri einhver pest í gangi.

Þetta rímar við það sem Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út skipið, hefur fullyrt. Hann hefur látið hafa eftir sér að ástæðan fyrir því að togaranum var ekki fyrr snúið til lands hafi verið sú að útgerðin hafi ekki þekkt hvað Covid er. Hann hefur sagt að ekki sé hægt að útskýra ákvarðanir skipstjórans, Sveins Geir Arnassonar, en áhöfnina bað hann afsökunar.

Stéttarfélög áhafnarinnar á frystitogaranaum Júlíusi Geirmundssyni tóku höndum saman og kærðu útgerðina til lögreglu. Tilefnið er frægur Covid-túr togarans þar sem útlit er fyrir að veikum sjómönnum hafi verið haldið á sjó svo vikum skipti og skikkaðir til að vinna. Þá hefur útgerðin orðið uppvís að því að hlýða ekki sóttvarnarlækni á Vestfirði sem gaf ítrekuð tilmæli þess efnis að togaranum yrði stýrt í land svo áhöfnin kæmist í sýnatökur. Það var ekki gert fyrr en þremur vikum eftir brottför.

Áður hafa útgerðin og skipstjórinn þráast við að afhenda sjódagbók togarans og var deilt um afhendingu hennar fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Þar var einnig tekist á um fyrirhuguð sjópróf og þar fullyrtu tvímenningarnir að þeir myndu ekki taka þátt í vitnaleiðslum sjóprófanna þar sem þær sæta sakamálarannsókn hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Þar sem þeir hafa stöðu sakborninga í lögreglurannsókn þurfa þeir ekki að bera vitni fyrir sjóprófunum sem fram fara á mánudaginn kemur.

Nærri helmingur áhafnar fyrstitogarans Júlíusar Geirmundssonar frá Ísafirði, hefur nú risið upp gegn skipstjóra sínum, Sveini Geir, sem stýrði hinum fræga Covid-túr skipsins sem Mannlíf greindi fyrst frá. Hann hefur sjálfur neitað að mæta í sjópróf og var það kornið sem fyllti mælinn hjá skipverjunum samkvæmt heimildum Mannlífs.

„Þarna var verið að spila með líf manna og menn voru bara drulluheppnir að það dó enginn.“

Áhöfn togarans sendi í vikunni bréf til útgerðarinnar þar sem þeir lýsa yfir vantrausti á skipstjóra togarans. Þar er krafist þess að Sveinn láti af störfum. Þar kemur fram að meirihluti skipverja standi að baki bréfsins en ekki er staðfest hve margir þeir séu.

- Auglýsing -

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, skilur ekkert í hegðun útgerðarinnar. Hann segir að skorað hafi verið á útgerðarsjórann, Valdimar Steinþórsson, til að mæta fyrir sjóprófin en það hafi ekki enn fengist staðfest. „Ég er satt að segja ansi hissa yfir þessu, bæði hvernig útgerðin og skipstjórinn haga sér. Ég er búinn að vera lengi í þessu og hef aldrei orðið vitni að öðru eins. Það virðist vera sem þeir komist upp með það að bera ekki vitni í sjóprófunum en ég held að þeir séu að skjóta sig í fótinn með þessu í staðinn fyrir að mæta auðmjúkir og biðjast afsökunar,“ segir Valmundur og bætir við:

„Það er það sem mér hefur fundist vanta upp á. Það er enginn að fara skjóta neinn eða hengja fyrir þetta heldur gengur þetta út á að ná fram sannleikanum. Við þurfum að geta lært af reynslunni svo þetta komi ekki fyrir aftur því þetta er svo grafalvarlegt mál. Þarna var verið að spila með líf manna og menn voru bara drulluheppnir að það dó enginn. Skipstjóri og yfirmenn útgerðar þurfa bara að standa sína plikt og bera ábyrgð á sínum gjörðum.“

Sveinn sagðist ekki hafa neitt um málið að segja þegar blaðamaður spurði hann út í vantraustsyfirlýsinguna á hendur sér en hann hefur ítrekað neitað að tjá sig um málið við Mannlíf. Hann hefur sjálfur frábeðið sér sýndarréttarhöld vegna túrsins sem ætluð séu til þess eins að smána sig opinberlega. Hann segist þó ekki ætla að skorast undan ábyrgð í málinu, því hélt hann fram í tilkynningu sem hann lögð var fram í héraðsdómi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -