Einkennileg staða er uppi í Landsbankanum sem skila miklum gróða á sama tíma og öll yfirstjórn bankans er á höggstokknum vegna afglapa við kaup á tryggingafélaginu TM. Bankaráðið og bankastjórinn voru samstiga í því að ríkisvæða tryggingafélagið.
Fundur Landsbankamanna var haldinn í aðdraganda kaupanna með þáverandi fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Kaupin voru útskýrð í þaula og hermt er að Þórdísi hafi líkað kaupin vel. Seinna vaknaði ráðherrann upp við vondan draum og fordæmdi það að ríkisfyrirtæki væri að þenja sig inn á lendur einkastarfsemi. Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri andmælti og svaraði ráðherra sínum fullum hálsi rétt eins og bankaráðið.
Nú standa blóðdagar í bankanum. Staðan sú að allt bankaráðið hefur verið rekið á einu bretti og Þórdís ráðherra er flúin af stóli fjármálaráðherra. Stóll Lilju bankastjóra er sjóðheitur og þess beðið að henni verði skákað úr starfi eða henni gert óbærilegt að starfa áfram. Hann er vandstiginn vangadansinn við Mammon …