Sjómenn eru hundóánægðir með framgöngu vinnuveitenda sinna. Þetta kom fram á þingi Sjómannasambands Íslands sem skorar á útgerðarmenn að temja sér betri samskiptahætti.
Sjómannasambands Íslands skorar á íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn og samtök þeirra. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri og ár. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða,“ segir í ályktun sjómanna sem á ekki síst erindi við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem þykir vera föst fyrir í kjaramálum og óvægin í samskiptum við hetjur hafsins.
Sjómenn segja að skapa þurfi nýtt traust á milli launþega og vinnuveitenda „þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samskiptum“.
Og sjómenn hafa fleiri skilaboð til útgerðarmanna. Þau snúa að hvíldartíma um borð í fiskiskipum. Þess er krafist að útgerðir virð lögbundinn hvíldartíma.
„Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Einnig krefst þingið þess að mönnun fiskiskipa sé ætíð í samræmi við þá vinnu sem fram fer um borð,“ segir í ályktun sjómanna.