„Ég sat við matarborðið með mömmu og Ísland í dag var að klárast og þá birtist mynd af senunni sem ég þekkti úr Neyðarlínuþættinum. Ég þekkti setninguna úr símtalsklippunni „buxurnar voru alblóðugar“ og horfði á mömmu og hún sagði bara við mig „já ég held að þetta sé um hann“ og ég varð svo reið. Ég skil ekki af hverju enginn lét okkur vita,“ segir Erla Rós Bjarkadóttir sem fékk þær fréttir þegar hún var 9 ára að faðir hennar hefði orðið manni að bana. Faðir hennar, Bjarki Freyr Sigurgeirsson, sat inni og afplánaði dóm fyrir morðið. Hann lés í byrjun október. Nokkru síðar sýndi Stöð 2 þátt um morðið.
Mál Bjarka var tekið fyrir í þættinum Ummerkjum þann 15. nóvember síðastliðinn. Í þættinum er rannsókn morðmála krufin og atburðarásin endurleikin. Fjölskyldan var slegin að hafa ekki fengið ábendingu um umfjöllunina áður en hún fór í loftið.
„Ég hugsaði svo bara strax til fjölskyldu mannsins sem dó. Þetta var nógu erfitt fyrir okkur en ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir þau og ég vona innilega að þau hafi verið látin vita. Amma varð alveg miður sín og það var sérstaklega erfitt að sjá þetta svona stuttu eftir að sonur hennar dó.“
Bjarki Freyr átti enga sögu um gróf brot áður en hann varð Braga Friðþjófssyni að bana. Hann hafði gerst sekur um ýmis innbrot, meðal annars stolið lyfseðilsskyldum lyfjum.
„Þetta kom öllum mjög mikið á óvart. Hann átti ekki sögu um einhver ofbeldisbrot. Flestir sem þekktu pabba minn vita að hann var ekki ofbeldismaður. Þetta var ekkert líkt honum. Hann var auðvitað í neyslu svo maður veit ekki allt en hann var enginn ofbeldisafbrotamaður. Hann var undir áhrifum mikilla lyfja þetta kvöld og það var mikil neysla og óreiða í lífi hans.“
Viðtalið í heild sinni, Pabbi minn drap mann.