Nýverið birti tryggingafélagið Sjóvá tilkynningu um jákvæða afkomuviðvörun hjá félaginu. Um er að ræða uppgjör annars ársfjórðungs ársins 2021 og tekið er fram að um bráðabirgðaniðurstöðu sér að ræða því uppgjörið sé enn í vinnslu, það getur tekið breytingum þar til það er fullunnið. Fullunnið uppgjör á að birtast 17. ágúst næstkomandi segir í tilkynningunni.
Afkoma tryggingafélagsins var 3.290 milljónir króna fyrir skatt á öðrum ársfjórðungi. Afkoma af vátryggingastarfsemi er um 590 milljónir króna og afkoma af fjárfestingarstarfsemi félagsins um 2.700 milljónir króna eða samtals 3.290 milljónir. Hér má sjá tilkynninguna í heild sinni: Sjóvá: Jákvæð afkomuviðvörun.
Mikið er rætt um það hvað tryggingafélög innheimta himinháar fjárhæðir af neytendum þegar kemur að öllu því sem þarf að tryggja sama hvort það séu bifreiðar, innbú, húsnæði og annað. Þann 20. maí síðastliðinn birti Mannlíf frétt um það að tryggingafélögin væru sögð okra á neytendum undir vernd Seðlabankanns.
Iðgjöld hafa nefnilega hækkað á meðan slysum fækkar, samt halda tryggingafélög að okra á neytendum. Það er með öllu óásættanlegt og hafa neytendur margir hverjir minnst á að það væri óskandi að fyrirtæki eins og Costco kæmi inn á íslenskan tryggingamarkað svo verð á tryggingum lækki hér á landi. Þar eiga neytendur auðvitað við þær miklu breytingar sem koma Costco hafði í för með sér, bæði í vöruverði og eldsneytisverði.
Þó er það með öllu óásættanlegt að eitthvað róttækt þurfi að breytast svo að tryggingafélög í landinu láti af því mikla okri sem þau viðhafa gagnvart neytendum í landinu. Það er einnig algerlega ótækt að Seðlabanki Íslands skuli styðja það að tryggingafélögin haldi ótrauð áfram á þeirri braut sem þau hafa verið á og það á kostnað neytenda og heimilanna í landinu. Neytendur kalla eftir breytingum og sanngirni í þessum málum en það virðist enginn vera að hlusta á þá. Stjórnvöld skella skollaeyrum við vandamáli sem blasir við og aðhafast heldur ekkert í málinu.