„Skimun fyrir sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti sýnir að STEC E. coli finnst bæði í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum,” segir í tilkynningu Matvælastofnunnar. „Þetta er í fyrsta sinn sem skimað er fyrir þessari eiturmyndandi tegund.”
„Tilgangur skimunarinnar var að kanna stöðu sjúkdómsvaldandi örvera í afurðum þegar neytandinn fær þær í hendur, og fór því sýnatakan fram í verslunum,” segir í tilkynningunni. „Tekin voru um 600 sýni af kjöti af sauðfé, nautgripum, svínum og kjúklingum, af innlendum eða erlendum uppruna frá mars til desember 2018.”
„E. coli. STEC getur valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur en einnig getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða.” Smit getur borist með menguðum matvælum eða vatni. Þá getur bein snerting við smituð dýr eða umhverfi mengað af saur aukið smithættu.
„Skimunin var á vegum Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.” Þá var einnig skimað eftir salmonellu og kampýlóbakter í svína- og alifuglakjöti. Hvorugt greindist í kjöti að undanskilinni salmonellu sem fannst í einu sýni af svínakjöti. „Ljóst er að mikill árangur hefur náðst með forvörnum og eftirliti í eldi og við slátrun alifugla og svína.”