Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað sjúklinga vegna skorts á búsetuúrræðum og þar af leiðandi ekki tekið á móti nýjum sjúklingum. Samkvæmt starfsmanni á velferðarsviði Reykjavíkurborgar má ástæðuna meðal annars rekja til þess að sjúklingarnir hafi orðið útundan.
Mannlíf greindi frá því á dögunum að ófremdarástand hafi skapast á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi. Skortur á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu veldur því að ekki hefur verið hægt að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð á deildunum. Á öryggisgeðdeildinni geta verið átta sjúklingar og voru þar sjö. Af þeim er hægt að útskrifa fjóra. Búsetuúrræði í félagslega kerfinu er hins vegar ekki til staðar fyrir þá. Á réttargeðdeildinni eru svo fjórir og eru þrír þar útskriftarhæfir. Tveir á réttargeðdeildinni hafa beðið eftir búsetuúrræði síðan um áramótin síðustu.
Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi, sagði í samtali við Mannlíf þetta valda klemmu, ekki sé hægt að taka á móti nýjum sjúklingum þegar útskriftarhæft fólk er þar fyrir.
„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og bendir á það séu margir þröskuldar sem þurfi að yfirstíga og því vinni velferðarsvið Reykjavíkurborgar og geðsvið Landspítalans saman að því að finna húsnæði fyrir sjúklinga svo þeir komist af spítalanum.
„Við höfum fullan skilning á vanda sjúklinga á Kleppi. Það dregur líka úr batahorfum þeirra að þurfa að gista þar þótt hægt sé að útskrifa þá.“
Berglind segir Reykjavíkurborg og reyndar fleiri enn vera að vinna sig út úr því þegar málefni fatlaðra voru færð frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Í þeirri yfirfærslu hafi gleymst að gera ráð fyrir þeim sem voru á spítala. „Þetta er vandamál sem hefur verið unnið markvisst með. Með átaki tókst að eyða biðlistanum fyrir tveimur árum. Hann hefur hins vegar birst jafnharðan aftur.“
Að hennar sögn hefur margt tafið fyrir því að úrræðum fjölgi sem mæti þörfum sjúklinganna á Kleppi. Þar á meðal sé uppsveifla á fasteignamarkaði sem setji meiri pressu á allt. Til viðbótar sé samkeppni um stofnframlögum sveitarstjórnar og ríkis úr Íbúðalánasjóði til byggingar félagslegs húsnæðis og fleiri verkefna fyrir fatlaða. Hún bendir hins vegar á að fyrir um ári hafi verið samþykkt uppbyggingaráætlun fyrir geðfatlaða og fleiri sem heyri undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar er í samræmi við spá gert ráð fyrir byggingu 200 íbúðakjarna til ársins 2030. Unnið er eftir því. Í samræmi við það voru tveir íbúðakjarnar opnaðir í apríl og maí og opnar sá þriðji í júlí.
„Við höfum skoðað ýmsar aðrar leiðir, svo sem að hafa íbúðir utan kjarna, íbúðir í venjulegum húsum fyrir geðfatlaða einstaklinga sem þurfa ekki næturþjónustu. En það sama á við um þær og íbúðakjarnana, íbúar í hverfum borgarinnar þurfa að vera hliðhollir því að íbúðakjarnar séu í götum þeirra. Kærur hafa farið á milli vegna þessa og það hefur bæði hamlað og hægt á framkvæmdum. En þegar hjólin fara að snúast þá gerist þetta vonandi allt hraðar,“ segir Berglind.