Karlmaður sem réðst á dyraverði í miðborg Reykjavíkur í gær má búast við kæru vegna líkamsárásar. Dyraverðirnir voru að vísa manninum út af bar þegar hann réðst á þá og var lögregla kölluð til.
Þá var lögreglunni tilkynnt um líkamsárás í vesturbænum. Gerandi var handtekinn og farið með hann bak við lás og slá.
Tilkynnt var í tvígang um ónæði. Þar var um að ræða hóp ungmenna sem höfðu meðal annars verið að slást. Þegar lögregla mætti á svæðið voru ungmennin hvergi sjáanleg.
Ökumaður sem lögregla hafði afskipti af missti stjórn á skapi sínu. Lögregla stöðvaði manninn sem grunaður var að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi. Þegar lögregla ætlaði að færa hann í fangaklefa réðst hann á lögreglu.
Lögregla ók tveimur mönnum heim. Mennirnir voru sinn á hvorum veitingastaðnum og vissu vart í þennan heim né annan vegna ölvunar.