Salka Sól Eyfeld verður í aðalhlutverki á laugardaginn þegar Þjóðleikhúsið frumsýnir hið geysivinsæla leikrit Ronju ræningjadóttur, sem byggt er á bók Astrid Lindgren. Hún segir Ronju mikilvæga fyrirmynd fyrir ungar stelpur, en sjálfa hafi hana skort slíkar fyrirmyndir í æsku.
Ekki nóg með það að Ronja sé fyrsta aðalhlutverkið sem Salka Sól leikur, þetta er í fyrsta sinn sem hún er í hlutverki leikara í atvinnuleikhúsi. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég tekst á við það,“ segir Salka Sól og hlær. „En einhvern tímann er allt fyrst. Þetta leggst rosavel í mig, er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef tekið að mér og það eru algjör forréttindi að fá að hlakka til að mæta í vinnuna alla daga.“
Þegar tilkynnt var um val Sölku Sólar í hlutverk Ronju lét hún hafa eftir sér að þetta væri draumahlutverkið sitt, hvað meinti hún með því?
„Ég horfði mjög oft á sænsku myndina um Ronju þegar ég var lítil og ég man að ég sagði eitt sinn við mömmu að ef ég fengi einhvern tímann að leika aðalhlutverk í leikriti vildi ég leika Ronju eða Línu Langsokk, þá yrði ég sko sátt. Ronja var stór hluti af æsku minni og mér þykir mjög vænt um að fá að túlka hana og kynna hana fyrir yngra fólkinu. Ég held líka að þetta hlutverk henti mér vel því það er mjög stutt í barnið í mér. Ég myndi segja að það væri hæfileiki að leyfa sér að fara í það hlutverk og rækta barnið í sér.“
„Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu.“
Hatur er eitthvað sem okkur er kennt
Spurð hvort hún og Ronja séu líkar er Salka Sól snögg til svars.
„Já, við erum mjög líkar. Það er dálítið stórt skap í okkur báðum, en mikil réttlætiskennd og það sem er fallegast við Ronju er að hún er svo ótrúlega óhrædd við að taka sjálfstæðar ákvarðanir, hún eltir ekki það sem henni hefur verið kennt. Ég kannast við það hjá sjálfri mér. Ég hef aldrei verið hrædd við að taka eigin ákvarðanir og þora að vera bara nákvæmlega eins og ég er.“
Salka Sól segir að boðskapur sögunnar um Ronju skipti hana miklu máli og henni finnist þurfa að kynna hana fyrir öllum börnum.
„Þótt Ronju sé kennt að hata óvininn, og geri það kannski í fyrstu, þá ákveður hún að láta það ekki stjórna sér heldur kynnast óvininum. Við fæðumst nefnilega alveg ómenguð og ef það er hatur í fólki er það eitthvað sem því hefur verið kennt. Við verðum að þora að fara út fyrir þann ramma og skoða heiminn með okkar eigin augum.“
Mikilvægt að hafa sterkar fyrirmyndir
Fyrir utan að leika Ronju er Salka Sól þátttakandi í tónlistarhópnum Girl PWR, er Ronja ekki últra fyrirmynd þegar kemur að valdeflingu stelpna?
„Júhú,“ segir Salka Sól með sannfæringu. „Hún er það sko. Bæði hún og Lína Langsokkur. Kvenkarakterarnir sem Astrid Lindgren skrifar eru alveg magnaðir og stórkostlegt að hafa svona karaktera í aðalhlutverki í barnabókum.“
En um hvað snýst verkefnið Girl PWR?
„Ennþá er það bara hljómsveit en vonandi verður það hreyfing í framhaldinu. Þetta er valdeflandi batterí fyrir allar konur og akkúrat núna vill svo til að það eru Spice Girls sem eru í kastljósinu hjá okkur.“
Talið berst að fyrirmyndum stelpna og hvað þarf til að þær treysti sér til að standa með sjálfum sér og fylgja draumum sínum eftir. Er það eitt af markmiðum Sölku Sólar að verða slík fyrirmynd fyrir ungar stelpur?
„Já, ég held það,“ segir hún. „Ég vona það allavega. Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu. Ég held til dæmis að ég hefði farið miklu fyrr að rappa ef ég hefði haft fleiri kvenfyrirmyndir í rappinu. Ég hefði örugglega byrjað á því tíu ára eins og flestir strákarnir sem eru að rappa í dag, en ekki tuttugu og fimm ára eins og ég gerði.“
Hverjar voru þínar fyrirmyndir þegar þú varst að alast upp?
„Ég leit rosalega mikið upp til tónlistarkvenna, eins og Emiliönu Torrini til dæmis. Hún var í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo fór ég mjög mikið í leikhús og fannst alltaf Margrét Vilhjálms og Ólafía Hrönn ógeðslega skemmtilegar leikkonur og dáðist að þeim. Ég held að á okkar tímum sé það mikilvægara en nokkurn tíma áður að hafa þessar fyrirmyndir. Ég er auðvitað þekktust fyrir það sem ég er að gera í tónlistarheiminum, en ég er líka þekkt fyrir aktívisma og að benda á það sem betur mætti fara. Ég styð femíníska baráttu og held að það skipti miklu máli að hún sé líka sjáanleg í samfélaginu.“
Ætlaði að rjúka upp á svið
Faðir Sölku Sólar er leikarinn Hjálmar Hjálmarsson, ólst hún að einhverju leyti upp í leikhúsinu?
„Já, já, já, já,“ segir hún og hlær. „Ég var allar helgar uppi á svölum að horfa á Kardimommubæinn eða Dýrin í Hálsaskógi eða eitthvað. Ég meira að segja fór á Ronju 1992, þegar Sigrún Edda lék hana, og það er til fræg saga af mér þar sem ég ætlaði að hlaupa upp á svið þegar það var partí í sýningunni. Ræningjarnir ákveða að slá upp veislu og ég varð svo spennt, fjögurra ára gömul, að ég ætlaði bara að hlaupa upp á sviðið og pabbi rétt náði að grípa í kjólinn minn og stoppa mig áður en ég var bara mætt upp á svið til að taka þátt í gleðinni. Núna, tuttugu og sex árum síðar, var mér svo bara boðið í partíið.
Viðtalið fer fram fáeinum dögum fyrir frumsýningu, hvernig ætlar Salka Sól að nota þá til að undirbúa sig fyrir stóru stundina?
„Ég bara reyni að sofa vel og passa upp á röddina, nýta mér allar þær æfingar og tækni sem ég hef lært. Ég held að aðalatriðið sé að hvílast nóg og setja sigg inn í þennan heim sem við erum að skapa á sviðinu. Heim Ronju ræningjadóttur.“
Þannig að þessa vikuna verður þú bara Ronja utan sviðs og innan?
„Já. Ég sagði við manninn minn að hann skyldi ekki láta sér begða þótt ég svaraði honum undarlega og segði eitthvað skrýtið. Það væri ekki ég, heldur Ronja.“