Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Skátahöfðinginn Harpa Ósk Valgeirsdóttir: „Er alltaf með fæðingatöskuna í skottinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það eru mörg verkefni sem mig langar til að koma til leiðar og sem skátahöfðingi er ég formaður stjórnar Bandalags íslenskra skáta og hef þá betra tækifæri til þess að ýta á eftir þessum verkefnum,“ segir Harpa Ósk Valgeirsdóttir sem var kjörin nýr skátahöfðingi Íslands fyrr í þessum mánuði. „Ég tel mig líka hafa yfirgripsmikla þekkingu á starfi okkar og hvar megi bæta stöðuna og er tilbúin að leggja mig fram til að gera skátastarfið að kröftugu æskulýðsstarfi sem sé í boði fyrir alla krakka sem hafa áhuga.“

Skátaævintýrið er með því skemmtilegra sem hægt er að taka þátt í.

Hverju vill hún koma til leiðar varðandi skátana?

 

„Skátahreyfingin veitir börnum og ungu fólki einstakt tækifæri til að efla sig á sviði leiðtogaþjálfunar, verkefnastjórnunar, lýðræðisvitundar og í nytsamlegri færni á ýmsum sviðum. Þessi þjálfun fer fram í gegnum athafnanám úti í náttúrunni í góðra vina hópi með stuðningi fullorðinna eftir því sem við á. Allir eru velkomnir til starfa sama hvaða aldur, kyn, kynþáttur eða uppruni. Það er enginn varamannabekkur, allir geta fundið verkefni við hæfi og skátaævintýrið er með því skemmtilegra sem hægt er að taka þátt í; þetta er áhugamál sem endist út ævina. Skátahreyfingin er alþjóðleg hreyfing og það eru miklir möguleikar í boði fyrir ungt fólk á alþjóðavettvangi skáta eins og þátttaka á alheimsmótum, í alþjóðlegum skátamiðstöðvum og í ýmiss konar hjálparstarfi.“

Harpa Ósk Valgeirsdóttir

Nýr skátahöfðingi Íslands er spurður út í áherslur hans.

- Auglýsing -

„Í stuttu máli vil ég skerpa sérstöðu skátahreyfingarinnar, efla ungt fólk til ábyrgðar, framkvæmda og lýðræðislegrar hugsunar og vera til staðar fyrir þá skáta og foringja sem þurfa stuðning eða hvatningu í sínu starfi. Ég vil að skátahreyfingin sé aðgengileg börnum og ungmennum um allt land óháð búsetu, getu eða uppruna.“

Harpa Ósk segir að skátastarfið gefi henni mjög mikið. „Ég nýt þess að starfa í hópi með ungu fólki og læri stöðugt af því. Skátastarfið gefur mér líka tækifæri til að eiga sameiginlegt áhugamál með allri fjölskyldunni; mömmu, systrum mínum, manninum mínum og krökkunum mínum.“

Hvað eru skátarnir í huga nýs skátahöfðingja?

- Auglýsing -

„Mín önnur fjölskylda og lífsstíllinn minn.“

 

Ólík færni

Harpa Ósk segir að móðir sín hafi upphaflega kynnt sig fyrir skátunum þar sem hún var starfandi sveitarforingi á Akranesi þegar Harpa Ósk var lítil. „Ég byrjaði á því að fara fjögur sumur í röð í sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni og fékk þar góða kynningu á skátastarfinu og öllum ævintýraheiminum í kringum skátana. Ég byrjaði svo sjálf að taka þátt í vikulegu starfi í Ægisbúum, í Vesturbæ Reykjavíkur, þegar ég var 12 ára árið 1993.“

Það er reynsla og kunnátta sem fylgir manni alla ævi.

Hvað er eftirminnilegast frá fyrstu árunum? Hvað lærði Harpa Ósk og hvernig breytti skátastarfið henni?

„Fyrstu árin fannst mér spennandi að kynnast allri þessari ólíku færni sem var verið að kenna, stjörnumerkin, skyndihjálp, að læra að útbúa sig fyrir útilegur og þekkja veðrið og læra að gera hnúta til að búa til stórar byggingar án hamars og nagla. Svo held ég að það hafi verið sjálfstæðið sem kom með allri þessari þekkingu sem fékk mig til að halda áfram. Ég varð foringi 13 ára eins og flestir gerðu á þeim tíma og þá fékk maður ákveðna ábyrgð í hendur og lærði verkefnastjórn og að hafa yfirsýn yfir verkefnin. Það er reynsla og kunnátta sem fylgir manni alla ævi.“

Verkefnin hafa verið mörg.

„Ég hef verið bæði í æskulýðsstarfinu sem sveitarforingi og var svo félagsforingi Ægisbúa; að vinna með krökkum og fara í útilegur. Svo fór ég að kenna á leiðtoganámskeiðum og stjórnaði vinsælum unglinga- og ungmennanámskeiðum um árabil. Síðustu ár hef ég verið að horfa á umgjörð skátastarfsins og fara á dýptina í innihaldið í starfinu okkar. Ég kláraði nýlega með góðum hópi að vinna starfsgrunninn okkar í aðgengilegt form og það stuðningsefni fá félögin svo fyrir haustið. Ég býst við að það muni auka kraftinn í skátastarfinu til muna.“

Harpa Ósk er gift Óskari Þóri Þráinssyni og eiga þau þrjú börn. Svo á fjölskyldan hundinn Pílu sem er af tegundinni Smooth Collie.

„Skátastarfið og útivist er fjölskylduáhugamálið okkar en sjálf sit ég og smíða víravirki þegar ég þarf að taka mér pásu frá ysi og þys hversdagsins.“

Harpa Ósk Valgeirsdóttir

Rúmlega 300 börn

Skátahöfðingi Íslands starfar sem ljósmóðir.

„Ég lærði í gegnum skátastarfið að vera ávallt viðbúin að hjálpa öðrum. Þegar ég fór að velta fyrir mér háskólanámi komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði að vera til staðar fyrir fólk þegar það þyrfti helst á stuðningi að halda og akkúrat þar starfa ljósmæður; í hjarta mikilvægustu reynslu fólks á ævinni. Mér finnst eftirminnilegast í hjúkrunarnáminu hvað það nám er yfirgripsmikið og fjölbreytt og sem ljósmæðranemi lærði ég hvað samskipti skipta miklu máli, hvert orð og snerting hefur áhrif og það er svo mikilvægt að vanda sig þar.“

Harpa Ósk vinnur hjá Björkinni sem veitir samfellda ljósmæðraþjónustu á Fæðingarstofunni Síðumúla og í heimafæðingum auk þess að veita heimaþjónustu í sængurlegu og bjóða upp á námskeið og ráðgjöf fyrir verðandi foreldra.

Það myndast miklu dýpri tengsl.

„Ljósmæðrabekkurinn minn útskrifaðist rétt eftir bankahrunið og það var ráðningarbann á Landspítalanum. Við stofnuðum þá Björkina sem okkar starfsvettvang. Ég fór svo að vinna úti á landi, svo á vökudeildinni og í Hreiðrinu og kom aftur í Björkina þegar við hófum undirbúninginn við að opna fæðingarheimilið okkar í Síðumúla. Það er nú búið að vera starfandi í fimm ár og þar hafa nú fæðst yfir 300 börn og sumar fjölskyldur eru að koma til okkar í annað og þriðja sinn. Við erum einnig að sinna fjölskyldum í heimafæðingum og samtals eru þetta yfir 1.000 fjölskyldur sem hafa verið hjá okkur í þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og í heimaþjónustu eftir fæðingu síðan við opnuðum fæðingarheimilið 2017. Það er einstakt tækifæri að fá að vinna í þessari samfelldu þjónustu, að fá að kynnast fólki á meðgöngunni og kynnast bara nokkuð vel, vera svo til staðar fyrir þau í fæðingunni og fylgja þeim fyrsta spölinn með litla barnið. Það myndast miklu dýpri tengsl og mér finnst ég geta gefið meira af mér í þess konar þjónustuformi.“

Hverjir eru helstu kostir og svo ókostir heimafæðinga?

„Helstu kostirnir eru að fjölskyldan er á heimavelli, konan sem er að fæða er umkringd sínu eigin dóti með fólki sem hún þekkir og treystir og þannig virka fæðingarhormónin svo vel.  Helstu ókostirnir eru að þetta hentar ekki öllum, við mælum með að konur séu hraustar í grunninn, í eðlilegri meðgöngu og engir áhættuþættir til staðar.“

Ljósmóðurstarfið gefur skátahöfðingjanum mikið.

„Það eru auðvitað bara mikil forréttindi að fá að upplifa fæðingu barns og að sjá foreldra verða til þegar þau taka á móti barninu sínu. Þetta er einstök stund og alltaf svo sérstök upplifun þó maður sé að fara í aðra eða þriðju fæðinguna þann daginn  Þetta hefur líka svo mikinn samhljóm með skátastarfinu; að vera ávallt viðbúin því ég er alltaf með fæðingatöskuna í skottinu, tilbúin í næsta útkall.“

Þá sé mikilvægt að halda ró og ganga örugglega til verks.

Stundum koma upp krefjandi aðstæður og segir Harpa Ósk að þá sé mikilvægt að halda ró og ganga örugglega til verks. „Með góðri þjálfun, þekkingu og góðum samstarfsaðilum er alltaf hægt að ljúka þeim verkefnum.“

Umræðan um mistök við fæðingar hefur verið áberandi að undanförnu og segir Harpa Ósk að það sé auðvitað erfitt þegar slíkar umræður fara af stað. „Á sama tíma er mikilvægt að allir fái rými til að tjá sig um erfiða upplifun og stuðning til að vinna úr því. Og ég held að allar ljósmæður sem ég þekki séu tilbúnar til að hlusta.“

Hvaða lífsreynsla hefur mótað skátahöfðingjann og ljósmóðurina mest?

„Að vera ljósmóðir sem starfar utan hátækni hef ég lært mjög mikið af bæði samstarfskonum mínum og fjölskyldunum sem ég hef sinnt og svo að vera til staðar þegar fólk er að ganga í gegnum krefjandi lífsreynslu og að læra að vera til staðar fyrir konu bæði andlega og líkamlega þegar hún er að fæða barnið sitt. Það sem ég hef lært í þessu starfi hefur áhrif á samskipti mín við alla í kringum mig, að læra að fólk á alls konar sögu og hefur upplifað ýmislegt um ævina og það er mikilvægt að mæta öllum þar sem þeir eru.“

Hverjir eru framtíðardraumarnir?

„Stór og öflug skátahreyfing sem hefur áhrif á samfélagið sitt til góða og stuðlar að betri heimi.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -