Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Skeljungsfléttan sem gerði fimm einstaklinga ofurríka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Embætti héraðssaksóknara réðst í umfangsmiklar aðgerðir í síðustu viku vegna Skeljungsmálsins svokallaða. Fléttan sem ofin var í málinu er talin hafa falið í sér sölu hlut á undirverði, ólögmæta nýtingu á fjármunum Skeljungs, þynningu á veði kröfuhafa og um 850 milljóna króna greiðslu til hvers þeirra þriggja starfsmanna banka sem seldu nýjum eigendum Skeljung.

Fimmtudaginn 31. maí réðst embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls sem hafði verið til skoðunar þar frá miðju ári 2016. Málið snérist um meint umboðsvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.

Fimm einstaklingar eru með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Tvö þeirra, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, voru handtekinn á fimmtudag. Hin þrjú; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Guðjónsson, sem unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis fyrir um áratug, voru boðuð til skýrslutöku sama dag.

Fólkið er grunað um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði, að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag þar sem Svanhildur Nanna og Guðmundur afhentu hinum þremur sem seldu þeim Skeljung yfir 800 milljónir króna hverju fyrir sig fyrir þeirra aðkomu að málinu.

Á sama tíma og handtökurnar áttu sér stað fóru fram húsleitir víða um höfuðborgarsvæðið í tengslum við rannsókn málsins. Engar eignir voru þó kyrrsettar á þessu stigi málsins, en fólkið hefur allt efnast mjög hratt á síðustu árum. Og öll þau umsvif hófust með Skeljungsviðskiptunum sem nú þykir rökstuddur grunur um að hafi ekki staðist lög.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir er í dag í stjórn VÍS, en hún og eiginmaður hennar eru stórir hluthafar í félaginu. Hún sagði af sér stjórnarformennsku fyrir viku síðan í kjölfar þess að hún var handtekin af embætti héraðssaksóknara.

Bestu og verstu viðskiptin

Salan á Skeljungi og P/F Magn vöktu eðlilega mikla athygli í lok árs 2013. Þau voru valin bestu viðskipti ársins 2013 af Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í rökstuðningi dómnefndarmanna sagði m.a. „Ef rétt er að þau [hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson] hafi fengið tíu milljarða króna fyrir félagið (með skuldum) eru þau réttnefndir snillingar!“ og „Eigendur Skeljungs koma vel frá borði — fengu ríflega greitt fyrir sinn hlut.“

Viðskiptin voru líka ofarlega á blaði yfir verstu viðskipti ársins, en í þeim flokki lentu þau í öðru sæti. Þar var þó átt við að viðskiptin hefði verið léleg fyrir kaupendurna, sem að mestu voru lífeyrissjóðir. Í umsögn sagði að félagið hafi verið lítils virði nokkrum árum áður, en niðurfellingar skulda og kaupgleði fagfjárfesta hefði gert eigendum félagsins kleift að ná fram einum bestu viðskiptum síðustu ára. „Lífeyrissjóðirnir eru stútfullir af peningum og virðast vera að kaupa Skeljung á allt of mikið“ var haft eftir einum dómnefndarmanni Markaðarins.

- Auglýsing -

Kjarninn fer ítarlega yfir fléttuna í fjórum skrefum í Mannlífi sem kom út föstudaginn 8. júní og á vef sínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -