Starfsfólk á bráðamóttöku Landspítala óskaði eftir aðstoð lögreglu klukkan 03:40 í nótt vegna einstaklings sem var til vandræða á biðstofunni. Sá hafði skemmt húsgögn á biðstofunni.
Í skýrslu lögreglu segir að einstaklingurinn, sem var í annarlegu ástandi, hafi verið handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Vagnstjóri hjá Strætó þurfti þá að óska eftir aðstoð lögreglu um klukkan 23:00 í gærkvöldi vegna farþega sem neitaði að yfirgefa strætisvagninn. Farþeginn mun hafa verið til vandræða í vagninum áður en hann neitaði að yfirgefa hann. Með aðstoð lögreglu tókst að vísa farþeganum út.
Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu klukkan 03:28 vegna farþega sem gat ekki borgað fyrir umbeðinn akstur.