Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Skildi betur pabba sinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erna Kanema Mashinkila ferðaðist á síðasta ári til Sambíu í leit að sjálfri sér. Í heimildamyndinni Söngur Kanemu, sem fer í almennar sýningar í Bíó Paradís 6. september, er þessari örlagaríku ferð gerð skil.

„Ég fór af stað út í þetta þar sem mig langaði til að kynnast betur föðurfjölskyldunni minni og mynda í leiðinni sterkari tengsl við heimaland pabba. Það er nefnilega svo skrítið að þótt Sambía hafi alltaf verið stór hluti af mínu lífi vissi ég voðalega lítið um þetta Afríkuríki, hvað þá Afríku yfirleitt, maður lærir ekki mikið um hana í skólanum,“ lýsir Erna Kanema, 18 ára gömul menntaskólamær sem hefur alist upp í Reykjavík ásamt yngri systur, íslenskri mömmu og pabba frá Sambíu.

Pabbi hennar, Harry, hefur búið á Íslandi í 20 ár og fyrir utan tvær heimsóknir til Sambíu í barnæsku segir Erna Kanema að reynsla hennar af sambíski menningu sé að mestu leyti verið fengin í gegnum hann. Henni fannst hún því ekki þekkja uppruna sinn nógu vel og til að kynna sér hann betur ákváðu hún og fjölskylda hennar að heimsækja Sambíu á síðasta ári, en mamma hennar, Anna Þóra Steinþórsdóttir kvikmyndagerðarkona, fékk að mynda ferðalagið og útkoman varð að heimildamynd, Söngur Kanemu.

„Þetta var rosaleg upplifun,“ segir Erna Kanema um ferðina og brosir, „því ég öðlaðist allt annan skilning á hlutunum en þegar ég heimsótti Sambíu sem barn. Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn. Það er ekkert sem heitir að vera unglingur. Það hugtak er ekki til. Að átta sig á þessu eina atriði, að pabbi hafi komið úr svona umhverfi til Íslands hefur verið hjálplegt fyrir okkar samband.“

„Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn.“

Eins hafi verið gaman að kynnast tónlistarmenningu og -hefðum Sambíu sem séu talsvert ólíkt því sem þekkist á Íslandi. „Ég er á kafi í tónlist hér, syng í kórum og er að læra söng í djassdeild FÍH og fyrir mig var einstakt að fá að kynnast allt annarri tónlistarmenningu og bera hana saman við það sem ég hef verið að gera. Ég var eiginlega alltaf með upptökutækið í gangi, að taka upp kirkjukóra, messur og meira að segja hljóð í náttúrunni. Mig langaði til að geyma allar minningar sem ég gat,“ segir hún glöð, en þess má geta að tónlist myndarinnar, sem er samin af Árna Rúnari Hlöðverssyni, er meðal annars byggð á þessum upptökum Kanemu Ernu.

Erna Kanema segir að síðast en ekki síst hafi verið dýrmætt að fá að kynnast betur föðurfjölskyldunni. Fram að heimsókninni hafi hún verið svolítið fjarlæg en þarna hafi hún náð að mynda sterkari tengsl við ættingjana og sé nú í reglulegum samskiptum við suma þeirra á Facebook. „Já, áður fyrr voru það þau sem voru meira í sambandi við mig en nú er ég alltaf að senda þeim skilaboð,“ segir hún og hlær.

Sjálf hafi hún öðlast sterkari sjálfsmynd og töluvert dýpri skilning á sjálfri sér eftir heimsóknina til Sambíu. Henni finnst því mikilvægt að börn sem eiga foreldra hvort frá sínum menningarheiminum fái að kynnast uppruna sínum. „Í því samhengi finnst mér að skólar og frístunda- og félagsmiðstöðvar á Íslandi mættu taka meira tillit til annarra menningarheima og gera þeim betri skil. Við eigum að vera miklu opnari fyrir því að læra um aðra menningarheima og af þeim. Ef ég eignast börn vil ég til dæmis að þau séu meðvituð um sinn sambíska bakgrunn. Það er svo mikilvægt að þekkja uppruna sinn.“

- Auglýsing -

Spurð hvort þetta hafi aldrei verið erfitt ferli viðurkennir hún að stundum hafi verið lýjandi að vera með tökulið á hælunum alla daga. Eins hafi henni brugðið svolítið við að sjá lokaútgáfu myndarinnar. „Aðallega vegna þess að þar sem mamma var á bak við vélina var ég ekkert feimin og áttaði mig kannski ekki á því hversu berskjölduð ég yrði. Að því leytinu til er pínkuskrítið að myndin verði sýnd stórum hópi fólks í bíó. Annars gekk þetta vel og ef eitthvað erurðum við mamma bara nánari.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -