Þrátt fyrir að kórónaveiran SARS-CoV-2 hafi náð nokkurri útbreiðslu í a.m.k. sex ríkjum heims hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ekki enn lýst yfir heimsfaraldri.
Nokkur munur er á því hvernig „heimsfaraldur“ (e. pandemic) er skilgreindur milli ríkja og stofnana en vert er að hafa í huga að skilgreiningin snýr að útbreiðslu, ekki alvarleika.
Samkvæmt nýjustu tölum hafa 80.239 greinst með Covid-19; sjúkdóminn af völdum SARS-CoV-2. Alls hafa 77.780 greinst í Kína og þar af hafa 2.666 látist. Utan Kína hafa 2.459 greinst í 33 ríkjum og 34 látist. Á síðustu 24 klukkustundum greindust fyrstu tilvik Covid-19 í Afganistan, Bahrain, Írak og Óman.
Heimsfaraldri er lýst yfir þegar nýr sjúkdómur sem fólk hefur ekki myndað ónæmi gegn breiðist út víða um heim. Sumir miða við verulega útbreiðslu á tveimur eða fleiri heimsálfum en vanalega þarf það skilyrði að vera uppfyllt að sjúkdómurinn breiðist hratt út mann frá manni. Það er t.d. ekki nóg að um sé að ræða einstaklinga sem hafa smitast í upprunalandinu og ferðast heim, svokölluð „vísitilfelli“ (e. index case), eða einstaklinga sem sá hefur smitað, heldur viðvarandi smit manna á milli á viðkomandi ríki.
Yfirlýsing um heimsfaraldur hefur ekkert að gera með alvarleika sjúkdóms, fjölda smitaðra né fjölda látinna. Engu að síður er tilgangurinn að setja ríki og þjóðir í viðbúnaðarstöðu, hvetja þau til að taka yfirstandandi faraldur alvarlega og gera ráð fyrir fjárútlátum, auknu álagi á heilbrigðiskerfið og truflanir á daglegu lífi, svo dæmi séu tekin.
Ein ástæða til að draga það í lengstu lög að lýsa yfir heimsfaraldri er hins vegar að forðast það að yfirlýsingin hafi þveröfug áhrif; að í stað þess að vinna heilbrigðiskerfum heimsins gagn þá grípi múgæsing um sig og álagið á heilbrigðiskerfin aukist gríðarlega, að ástæðulausu.
Spurt og svarað á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Sérfræðingar benda t.d. á að langflestir sem smitast af SARS-CoV-2 muni aðeins finna fyrir mildum einkennum, eins og um væri að ræða hefðbundna flensu. Stjórnvöld verði hins vegar að gera ráð fyrir stórauknum fjölda sjúklinga á sjúkrastofnunum, eiga nauðsynleg lyf á lager og vera tilbúin að grípa til ráðstafana á borð við að vara við eða banna fjöldasamkomur. Þá verði almenningur að gera ráð fyrir að þurfa að halda sig heima.
Hvað varðar viðbúnað á Íslandi segja heilbrigðisyfirvöld sig vera vel í stakk búin. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, hefur m.a. ítrekað að spítalinn eigi fjölda öndunarvéla, en einn alvarlegri fylgifiska Covid-19 er slæm lungnabólga. Þá hefur mbl.is eftirfarandi eftir Ölmu D. Möller landlækni: „Okkur gekk mjög vel í svínaflensunni og það má mikið vera ef við klúðrum þessu.“
Engin lyf eru til við Covid-19 og margir mánuðir í bóluefni. Nokkur eru þó í þróun og hafa yfirvöld í Kína verið að gera tilraunir með ýmis veirulyf, m.a. lyf sem notað hefur verið HIV-veirunni.
Útbreiðsla HIV veirunnar á 9. áratug síðustu aldar er dæmi um heimsfaraldur, sem stendur raunar enn yfir. Annað dæmi er áðurnefnd „svínaflensa“. WHO lýsti yfir heimsfaraldri vegna flensunnar í júní 2009 og sagði henni lokið í ágúst 2010.
Í upphafi var talið að um 20 þúsund manns hefðu látist af völdum sjúkdómsins en rannsóknir leiddu í ljós að fjöldi látinna var á bilinu 150 til 575 þúsund. Þess ber þó að geta að áætlað er að 11 til 21% heimsbyggðarinnar hafi smitast.
Upplýsingar á vef Landlæknisembættisins.