Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Skipstjórinn í Covid-einangrun með undirmönnunum: „Ég hef ekkert að segja vinur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sveinn Geir Arnarsson, skipstjóri fyrstitogarans Júlíusar Geirmundssonar, er í einangrun með covid-sýktum undirmönnum sínum að Holti í Önundarfirði. Hann hefur ítrekað neitað að ræða málið þegar eftir því hefur verið leitað. „Ég hef ekkert að segja vinur,“ segir Sveinn í samtali við Mannlíf.

Lögreglan á Vestfjörðum gaf rétt í þessu út yfirlýsingu þess efnis að lögreglurannsókn fari fram varðandi Covid-19 fjöldasmitin um borð í togaranum. Málið verður rannsakað sem sakamál. „Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákveðið að taka til rannsóknar atvik er varðar Covid-19 smit áhafnameðlima um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270. Skipið kom til jafnar á Ísafirði þriðjudaginn 20. október sl. Af þeim 25 áhafnameðlimum sem voru um borð reyndust 22 smitaðir af covid-19. Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum miðar að því að afla upplýsinga og gagna um þá atburðarás sem varðar þessi smit og veikindi áhafnameðlima. Ótímabært er að gefa út frekari upplýsingar að sinni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar, hefur lýst því yfir að það hafi ekki verið skipun frá útgerðinni að halda veiðunum áfram þrátt fyrir veikindin. Hann segist ekki geta útskýrt ákvarðanir skipstjórans. „Ég get ekki útskýrt það. Það er eiginlega ekki hægt að útskýra það. Það hefði verið rétt að fara í land en þetta var bara svona,“ sagði Einar Valur í samtali við Vísi.

Mannlíf greindi fyrst frá fjöldasýkingum Covid-19 um borð í frystitogaranum. Togaranum var skipað í land eftir þriggja vikna túr þar sem áhöfnin fullyrðir að hún hafi verið neydd til vinnu þrátt fyrir veikindin. Arnar Hilmarsson háseti var einn þeirra sem rauf þögnina um hvað raunverulega gerðist á skipinu. Framkvæmdastjórinn hefur beðist afsökunar á málinu en það var hins vegar ekki gert fyrir en eftir nokkurra daga yfirklór og þöggun.

Líkt og Mannlíf greindi líka fyrst frá voru forsvarsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út togarann, ítrekað hvattir til að halda með skipið í land í Covid-sýnatöku. Þau tilmæli bárust frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum, Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, meðal annars á þriðja degi túrsins, en þau tilmæli voru virt að vettugi.

Útgerðin sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem það sagði að í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar. Fyrirtækið lét líka í það skína að það hafi verið ákvörðun annarra að ekki hafi verið ástæða til að halda með skipið til hafnar snemma í túrnum. Súsanna sagði í samtali við Mannlíf það hins vegar kýrskýrt að hún hvatti útgerðina alveg frá upphafi að fara með skipverja í sýnatöku. Það hafi hún gert ítrekað á meðan túrnum stóð.

- Auglýsing -

„Þetta var ekki mín ákvörðun og þetta hefði getað farið verr. Mín tilmæli hafa verið, og verða alltaf, alveg sama hvar þú ert staddur í heiminum, að þú eigir að koma í sýnatöku ef þú ert með einkenni. Ég get staðfest að þau samskipti áttu sér stað milli mín og útgerðarinnar, þar af mjög snemma í túrnum. Tilmæli mín eru mjög einföld,“ sagði Súsanna.

Útgerðin virðist sek um að hafa stofnað mannslífum í hættu með því að halda sjó þrátt fyrir að stærstur hluti áhafnarinnar hafi verið veikur. Þrátt fyrir endurtekin tilmæli sóttvarnayfirvalda hélt skipstjórinn ekki til hafnar til að láta skima fyrir veirunni og kom hinum  sjúku í skjól. Þvert á móti var haldið áfram í túrnum með þeim afleiðingum að nánast allir úr áhöfninni veiktust. Skipið hélt loks til hafnar, rúmum tveimur vikum eftir að veikindin hófust til að taka olíu.

Á endanum voru 22 af 25 manna úr áhöfn frystitogarans sýktir af Covid. Nokkrir áhafnarmeðlimir frystitogarans héldu í Covid-einangrun í skólabyggingu að Holti í Önundarfirði og meðal þeirra eru sjálfur Sveinn skipstjóri.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -