Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Skipulögð glæpastarfsemi sem teygir anga sína um allan heim

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimildamyndin Stolin list eða Nefertiti The Lonely Queen fjallar um stöðuna á menningarlegum verðmætum sem hafa verið stolin frá upprunaþjóðum og komið fyrir á söfnum fyrrum nýlenduvelda. Myndin hlaut góðar viðtökur þegar hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíð í Grikklandi á dögunum.

„Við erum þarna að fjalla um stöðuna á þjóðagersemum sem hafa verið teknar með vafasömum hætti og eru nú til sýnis á stórum stöfnum eins og British Museum og Louvres. Verðmæti sem gamlar nýlenduþjóðirnar neita að skila upprunaþjóðunum,“ útskýrir Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions sem stendur að baki gerð myndarinnar, í samvinnu við RÚV og grísku sjónvarpsstöðvarnar OTE og ERT.

„Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur.

Að hans sögn er þetta umfangsmikið umfjöllunarefni enda sé skipulögð glæpastarfsemi í kringum stolna list mikil, í raun mun meiri en hann hafi gert sér grein fyrir í upphafi. „Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur. Í kjölfar arabíska vorsins hefur til að mynda verið stanslaus straumur af munum frá löndum eins og Egyptalandi og Sýrlandi, bæði „orginal“ stolnum hlutum og fölsuðum sem hafa mikið til verið seldir til Bandaríkjanna, Evrópu og Kína, oft í skiptum fyrir vopn og eiturlyf. Falsanirnar eru svo góðar að fólk veit hreinlega ekki hvort það er að kaupa ósvikna muni eða ekki,“ lýsir hann og bætir við að þessi glæpastarfsemi hafi auðvitað valdið gríðarlegu tjóni, ekki aðeins fyrir þjóðir sem hafa verið rændar eins og í Egyptalandi, Írak, Líbíu og Sýrlandi, heldur einnig fyrir fornleifafræðinga sem vilja rannsaka munina. „Vandamálið er bara að þessi heimur er svo dulinn að það virðist vera erfitt, í raun bara ógerningur að uppræta starfsemina.“

Mafían að verki
Í ljósi þess um hversu umsvifamikla starfsemi sé að ræða segir Örn tökur hafa farið fram víða um heim; í Grikklandi, á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi, Egyptalandi, Sýrlandi og víðar þar sem hann og Þorkell Harðarson, samstarfsmaður hans, söfnuðu heimildum. Eftir það hafi tekið við tveggja ára vinna sem fór í að fullgera myndina og þrjá þætti sem hafa verið gerðir upp úr efninu fyrir sjónvarp.

Spurður hvort þeir félagar hafi lent í einhverjum hættum á þessum ferðalögum, segir Örn að þeir hafi blessunarlega sloppið við allt slíkt. Hins vegar hafi fljótlega komið í ljós að þeir sem standi á bakvið glæpastarfsemina séu langt frá því að vera einhver lömb að leika sér við, því þar sé mafían meðal annars að verki.

En vitið þið hvort þessi glæpastarfsemi teygi sig til Íslands? Var eitthvað í ykkar rannsóknum sem gaf það til kynna? „Það er erfitt að segja til um það,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega allt svo falið.“

Vakti athygli í Grikklandi

- Auglýsing -
„Grikkjunum … finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Samkvæmt Erni hafa myndin og þættirnir engu að síður sterka tengingu við Ísland þar sem í þeim er meðal annars fjallað um íslensku handritin. „Já, við komum inn á þau en í dag er helmingur þeirra á Íslandi og helmingur í Danmörku og þjóðirnar tvær hafa verið að stúdera þau saman. Sem sýnir að þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir þurfa auðvitað ekkert að sitja á verðmætum annarra þjóða. Það er vel hægt að semja um þessa hluti og eiga í góðu samstarfi,“ segir hann og bætir við að sá þáttur hafi einmitt vakið athygli þegar Stolin list var heimsfrumsýnd á hinni kunnu heimildamyndahátíð í Þessalóníku í Grikklandi í mars.

„Grikkjunum fannst þetta ánægjulegt. Þeir voru reyndar líka hissa þar sem þeim finnst að Íslendingar eigi að fá öll handritin. Rétt eins og þeim finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Myndin hlaut góðar viðtökur í Grikklandi og segir Örn að sýningarrétturinn að henni hafi þegar verið seldur til þriggja sjónvarpsstöðva. Nú sé verið að skoða framhaldið en greinilegt sé að mikill áhugi sé á myndinni.

- Auglýsing -

Aðalmynd: Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -