Áhöfn togarans Júlíusar Geirmundssonar, sendi bréf til útgerðarinnar þar sem þeir lýsa yfir vantrausti á Svein Geir Arnarsson sem skipstjóra togarans. Þar er krafist þess að Sveinn láti af störfum. Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV. Þar kemur fram að meirihluti skipverja standi að baki bréfsins en ekki er staðfest hve margir þeir séu.
Nærri helmingur áhafnar fyrstitogarans Júlíusar Geirmundssonar frá Ísafirði, hefur risið upp gegn skipstjóra sínum, Sveini Geir Arnarssyni, sem stýrði hinum fræga Covid-túr skipsins sem Mannlíf greindi fyrst frá. Hann hefur sjálfur neitað að mæta í sjópróf og var það kornið sem fyllti mælinn hjá skipverjunum samkvæmt heimildum Mannlífs.
Vantraustsbréfi áhafnarinnar hefur verið skilað inn til útgerðarinnar, Hraðfrystishússins Gunnvarar, og undir bréfið rita flestir þeir skipverjar sem alla jafna sigla með Sveini.
Áður hafa útgerðin og skipstjórinn þráast við að afhenda sjódagbók togarans og var deilt um afhendingu hennar fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir helgi. Þar var einnig tekist á um fyrirhuguð sjópróf og þar fullyrtu tvímenningarnir, eða lögmaður þeirra nánar tiltekið, að þeir myndu ekki taka þátt í vitnaleiðslum sjóprófanna. Aftur á móti var dagbókin afhent dómara fyrir réttinum sem nú fær það hlutverk að meta hvort bókin verði afhent stéttarfélögum sjómanna sem kærðu útgerðina og skipstjórann fyrir slæma meðferð skipverja í margfrægum túr hans á dögunum.
Stéttarfélög áhafnarinnar á frystitogaranaum Júlíusi Geirmundssyni tóku höndum saman og kærðu útgerðina til lögreglu. Tilefnið er frægur Covid-túr togarans þar sem útlit er fyrir að veikum sjómönnum hafi verið haldið á sjó svo vikum skipti og skikkaðir til að vinna. Þá hefur útgerðin orðið uppvís að því að hlýða ekki sóttvarnarlækni á Vestfirði sem gaf ítrekuð tilmæli þess efnis að togaranum yrði stýrt í land svo áhöfnin kæmist í sýnatökur. Það var ekki gert fyrr en þremur vikum eftir brottför.
Sveinn sagðist ekki hafa neitt um málið að segja þegar blaðamaður spurði hann út í vantraustsyfirlýsinguna fyrr í dag en hann hefur ítrekað neitað að tjá sig um málið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hann hefur sjálfur frábeðið sér sýndarréttarhöld vegna túrsins sem ætluð séu til þess eins að smána sig. Hann segist þó ekki ætla að skorast undan ábyrgð í málinu.
Hér kemur yfirlýsing skipstjórans vegna fyrirhugaðra sjóprófa sem til stendur að fari fram næsta mánudag:
„Yfirlýsing skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar
Það var mér þungbært að komast að því að smit um borð í skipinu reyndist vera kórónuveirusmit og erfitt að sitja undir því að ég hafi viljandi stofnað áhöfninni í hættu eða neytt veika menn til að vinna. Hvorugt er rétt og í engu samræmi við þau viðhorf sem ég hef haft að leiðarljósi ístörfum mínum. Fram hafa komið þungar ásakanir í minn garð og kærur m.a. frá mínu eigin verkalýðsfélagi. Er þungbært að sitja undir slíkum ásökunum, en ég mun ekki víkja mér undan ábyrgð í málinu og ég get gert mistök eins og aðrir menn. Lögreglan rannsakar nú hvort það hafi átt sér stað brot á lögum af minni hálfu og hef ég veitt lögreglunni allar upplýsingar sem hún hefur óskað eftir. Hefur hún undir höndum afrit af skipsdagbók og hef ég gefið henni mína skýrslu í málinu. Þá hefur lögreglan einnig tekið skýrslu af öllum áhafnarmeðlimum og öðrum sem hafa komið að málinu m.a. heilbrigðisstarfsfólki.
Bíð ég nú sem sakaður maður eftir niðurstöðu lögreglurannsóknar, en ég vænti þess að þar muni ég njóta sannmælis og réttlátrar málsmeðferðar eins og lög bjóða. Á sama tíma og verkalýðsfélag mitt og önnur stéttarfélög sjómanna lögðu fram kæru á hendur mér til
lögreglu lögðu þau fram beiðni um sjópróf. Með sjóprófi segjast þau ætla að rannsaka eigin kæru og komast að því hvort ég hafi gerst brotlegur við lög með þeim hætti sem þau halda fram í kærunni. Ætla þau að halda opinber réttarhöld yfir mér þar sem leiða á sannleikann í ljós og opinberlega smána mig. Ekki þarf að spyrja að því hvernig sá dómur verður, enda hafa þau þegar fellt hann.
Ég frábið mér sýndarréttarhöld og opinbera auðmýkingu í boði stéttarfélags míns og mun ekki taka þátt í þeim. Vilji stéttarfélög eiga við mig samtal og leita leiða til að bæta öryggi sjómanna þá er ég ávallt tilbúinn til að eiga slík samtöl við þau, á þeim grundvelli að markmiðið sé að vinna saman að því að bæta öryggi sjómanna, en ekki smána og niðurlægja opinberlega.
Ég mun ekki tjá mig frekar um málið opinberlega á meðan rannsókn lögreglu stendur yfir og ég hef stöðu sakbornings.
Sveinn Geir Arnarson skipstjóri“