Mikil óánægja ríkir á meðal viðskiptavina ferðaskrifstofunnar Tripical, vegna ferða sem hvorki verða farnar né fást endurgreiddar. Ferðaskrifstofan sérhæfir sig í útskriftarferðum og hafa fjölmargir bókað með þeim pakkaferðir í sumar til að fagna námslokum. Ekkert verður úr mörgum þeirra ferða vegna kórónuveirufaraldursins.
Samkvæmt gildandi lögum um pakkaferðir er skipuleggjanda eða söluaðila pakkaferða skylt að endurgreiða ferðamanni ferð sem ekki var farin. Nú blasir hins vegar við að viðskiptavinir Tripical hafa ekki fengið ferðir sínar endurgreiddar og á Facebooksíðu fyrirtækisins má sjá af nýjustu ummælum að óánægjan er mikil.
„Skítafyrirtæki sem svindlar á sínum viðskiptavinum“ segir einn viðskiptavinur í gær og „Svik og prettir, eina ferðalagið sem þetta fyrirtæki er á“ segir annar nú í morgun.
Ömurlegt ástand
Vissulega er þetta skítt fyrir viðskiptavini en það eru alltaf fleiri hliðar á málunum og í þessu tilfelli er staðan sú að Tripical hefur hreinlega ekki getað endurgreitt þar sem fyrirtækið hefur ekki og fær ekki endurgreitt frá sínum birgjum. Elísabet Agnarsdóttir hjá Tripical segir að ferðaskrifstofan sé að gera allt sem í sínu valdi stendur til að bjóða viðskiptavinum aðra úrkosti þótt ekki sé unnt að endurgreiða. „Við bjóðum viðskiptavinum að ferðast seinna á árinu, fara í aðrar ferðir og fá inneign fyrir mismuninum, ef svo ber undir,“ segir hún. Tripical hafi einnig boðið upp á útskriftarferðir hópa innanlands til að koma til móts við fólk á þessum erfiðu tímum.
„Við eigum góð samskipti við flesta en því miður eru sumir mjög óánægðir og hefur starfsfólki verið hótað öllu illu þannig að við getum hreinlega ekki haft opið,“ segir Elísabet en henni sjálfri hefur verið hótað á þann hátt að ógn stafar af. Segir hún að stjórnvöld verði að grípa til einhverra ráðstafana því svona geti þetta ekki gengið. Fyrirtæki á borð við Tripical eigi ekki marga möguleika þegar engir fjármunir fást til baka frá birgjum, flugfélögum og hótelum erlendis.
Eins og fram hefur komið í fréttum frá Neytendasamtökunum hafa fjölmargir leitað til þeirra vegna sambærilegra mála og vinna samtökin úr yfir 200 málum sem lúta að endurgreiðslum vegna pakkaferða. Samtökin hvetja fólk til að leita réttar síns, eins og lesa má um í fréttum á vef félagsins.