ORF Líftækni, sem er einna þekktast fyrir húðvörurnar BIOEFFECT, skoðar nú möguleikana á að selja frumuvaka sína til kjötræktunarfyrirtækja.
Frosti Ólafsson, forstjóri félagsins, og Björn Lárus Örvar, einn af stofnendum fyrirtækisins, segja frá þessu verkefni í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag. Þeir hafa átt í viðræðum við öll helstu fyrirtæki í heimi á sviði kjötræktunar.
Frosti segir mikla tækniframþróun hafa átt sér stað undanfarið sem býður upp á möguleika á búa til kjöt úr stofnfrumum.
„Tekin er stofnfruma úr nautgripum, svínum, laxi, túnfiski, kjúklingum, strútum eða öðrum dýrum. Þú fjölgar þessum stofnfrumum og breytir í vöðvafrumur og kjöt. Þetta er einfaldlega kjötræktun,“ segir Björn.
Frosti og Björn eru sammála um að kjötræktun hafi marga kosti, m.a. út frá dýraverndunarsjónarmiðum og sömuleiðis umhverfissjónarmiðum. Þeir segja margt fólk reka upp stór augu þegar þessi tækni er rædd en þeir segja kjötræktun vera framtíðina. „Það er bara spurning um hvenær en ekki hvort.“
ORF Líftækni hefur nú þegar sent sýnishorn af frumuvökum sínum til fyrirtækja sem sérhæfa sig í kjötrækt og verkefnið fer vel af stað.