Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Skrifar um dauðann út frá sjónarhorni barnsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega Auði Stefánsdóttur nýræktarstyrk fyrir verk hennar Í gegnum þokuna, en nýræktarstyrkir eru veittir árlega vegna skáldverka höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og eru hugsaðir sem hvatning til frekari dáða á þeirri braut.

Í samtali við Mannlíf segist Auður vera himinlifandi en játar að hún hafi ekki endilega búist við þessu. „Það voru auðvitað margar umsóknir og margt hæfileikaríkt fólk sem er að skrifa þannig að ég get ekki sagt að ég hafi gert það, nei. En þetta er mikil viðurkenning og ómetanleg hvatning og bendir til að ég sé að gera eitthvað rétt,“ segir hún glöð.

Í umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið segir að sagan sé fantasíubók fyrir börn um baráttu góðs og ills, dauðann og lífið. Höfundur taki á viðkvæmu málefni á fágaðan hátt og flétti „saman við spennandi atburðarás á flöktandi mörkum raunveruleika og ímyndunar.“ Sjálf segir Auður að sagan snúist um 10 ára stúlku í Reykjavík sem kljáir við dauða tvíburasystur sinnar og fer í kjölfarið yfir í annan heim, þar sem barátta góðs og ills á sér stað, en hugmyndina sækir hún úr eigin lífi. „Á undanförnum árum hef ég horft upp á fólk nákomið mér missa ung börn, síðast góða vinkonu mína sem missti aðra tvíburadóttur sína barnunga að aldri og þótt þessi saga byggi ekki beinlínis á því þá var það kveikjan að henni.“

Er þetta fyrsta bókin þín? „Ja, ég hef nú verið að skrifa frá því að ég var krakki. Var til dæmis staðráðin í að gefa út mína fyrstu bók þegar ég var ellefu ára, svona spæjarasögu í anda Nancy Drew-bókanna en það varð ekkert af því og kannski sem betur fer,“ segir hún og hlær. „Síðan vann ég einu sinni til verðlauna í smásagnakeppni Mímis, félags íslenskunema við HÍ. Annars hef ég verið hálfgert skúffuskáld, þar til nú.“

Auður er íslenskukennari í framhaldsskóla og er í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands með fram kennslu, en hún segir námið einmitt hafa orðið til þess að hún kláraði fyrsta uppkastið að sögu sinni í vetur. „Námið hefur verið mér mikil hvatning. Það hefur líka kennt mér að skrifa skipulega, vera ekki að bíða eftir að andinn komi yfir mig, heldur koma skrifunum upp í rútínu. Maður þarf auðvitað að vera skipulagður og nýta tímann vel þegar maður er líka í vinnu og námi. Þannig að það hefur nýst mér mjög vel.“

Hvenær stefnirðu á að gefa söguna út? „Ég vonast til að gefa hana út fyrir jól, svona ef allt gengur að óskum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -