„Dagurinn byrjaði voða rólega og við giftum okkur klukkan þrjú í gamalli kirkju í Innri Njarðvík,“ segir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir. Hún gekk að eiga sinn heittelskaða, Þorstein Inga Hjálmarsson, á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2016.
Báðir foreldrar Ingibjargar eru látnir og því þurfti hún að velja einhvern annan til að leiða sig upp að altarinu á þessum stóra degi. Bæði Ingibjörg og Þorsteinn voru sammála um að það verðuga verkefni ætti að vera sett í hendur einkadóttur þeirra, Huldu Sigurlaugar, sem þá var níu ára gömul.
„Okkur fannst hún tilvalin. Ég var strax ákveðin að velja hana,“ segir Ingibjörg, en Huldu fannst þetta mikill heiður.
„Hún var svo stolt og ánægð og fannst þetta gaman.“
Fann fyrir nærveru foreldranna
Ingibjörg saknaði foreldra sinna á brúðkaupsdaginn, en var í staðinn umvafin stórum systkinahópi.
„Vissulega var skrýtið að hafa ekki foreldra sína með, en ég fann fyrir nærveru þeirra. Þetta var mitt fyrsta brúðkaup og ég kem úr stórum systkinahóp og þau komu öll,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi verið afskaplega ánægð með daginn.
„Dagurinn var yndislegur. Við héldum veisluna heima með okkar nánustu, fengum gott veður, þó það væri 17. júní,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við erum með stórt hús og stóran pall þannig að þetta gekk vel og allt gekk upp, nema brúðartertan sem ég pantaði var mislukkuð. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana.“
Punkta allt niður og vera tímanlega
Hvað með góð ráð fyrir stóra daginn, lumar Ingibjörg á nokkrum slíkum?
„Já, það er best að punkta allt niður sem maður ætlar að hafa og gera. Og vera tímanlega í öllu svo það verði ekki mikið stress á stóra daginn.“