Halla Þórðardóttir fer með hlutverk í kvikmyndinni Suspiria sem var frumsýnd í Bíó Paradís í vikunni. Þetta er fyrsta hlutverk hennar á hvíta tjaldinu og segir Halla sem fer með hlutverk dansara að það hafi verið lærdómsríkt að leika á móti stjörnum eins og Tildu Swinton og Dakotu Johnson.
„Ég hafði nú engar fyrirframgefnar hugmyndir um þær en eftir að hafa kynnst þeim get ég sagt að þær eru báðar hlýjar og skemmtilegar. Fagmanneskjur fram í fingurgóma sem brenna fyrir list sinni og vilja taka þátt í því að færa sköpunarverkið upp á hærra plan,“ segir Halla þegar blaðamaður byrjar á því að spyrja hvernig hafi eiginlega verið að leika á móti stjörnum eins og Tildu Swinton og Dakotu Johnson.
Hún er uppáhaldsleikkonan mín og mér finnst hún stórkostlega áhugaverð listakona.
Halla játar að þegar hún fékk tilboð um að taka þátt í gerð myndarinnar hafi hjartað strax farið að slá örar þegar hún komst að því að Tilda léki í myndinni. „Hún er uppáhaldsleikkonan mín og mér finnst hún stórkostlega áhugaverð listakona. Sú skoðun breyttist ekki við gerð myndarinnar. Það var magnað að fylgjast með henni vinna á tökustað. Fagmennskan skein alveg í gegn.“
Hún segir að Dakota hafi síðan verið mikið á æfingum með sér og hinum dönsurun. „Bæði til þess að tileinka sér kóreógrafíuna sem er notuð í myndinni og eins til að fylgjast með því hvernig dansarar hita upp og hegða sér þegar þeir læra efni og þegar verið er að bíða í stúdíóinu,“ útskýrir hún og brosir.
Út fyrir þægindarammann
Spurð hvernig hafi komið til að hún landaði hlutverki í myndinni svarar Halla því til að árið 2015 hafi danshöfundur myndarinnar, Damien Jalet, sett upp verk sitt Les Medusées í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og Halla sem er meðlimur í flokknum, hafi dansað í því. Þegar leikstjóri Suspiriu, Luca Guadagnio, bað Damien um skapa dansheim myndarinnar ári síðar hafi Damien haft samband og fengið sig til að vera með. „Ég er ein fimm aðstoðardanshöfunda myndarinnar sem komu inn í ferlið á undirbúningsstigi og svo aðstoðaði ég Damien við að setja hina dansarana inn í verk hans, Les Medusées sem er notað sem grunnur að aðaldanssenu myndarinnar, Volk,“ lýsir hún.
Þar segist Halla hafa verið á heimavelli en að öðru leyti hafi starfsumhverfið verið mjög ólíkt því sem hún á að venjast úr leikhúsinu. Tökudagarnir hafi t.d. teygst upp í allt að sextán klukkustundir sem hafi ekki verið neitt grín þar sem allar tökur hafi farið fram á einangruðum stað, í yfirgefnu hóteli uppi á fjallstindi. Stundum hafi dansararnir aðeins fengið fimm mínútna fyrirvara á tökum eftir að hafa þurft að bíða í allt að tíu tíma og þá þurft að hita upp í hvelli fyrir danssenu sem var tekin upp aftur og aftur á nístingsköldu setti.
Ég var svo heppin að fá boð á frumsýninguna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.
Halla kveðst ekki fara með stórt hlutverk í myndinni en þó er auðheyrt að mikil vinna liggur að baki. „Þetta var vel út fyrir þægindarammann,“ viðurkennir hún fúslega. „Það getur auðvitað verið erfitt en er alltaf gott og hollt.“
Frumsýningin í Feneyjum mikil upplifun
Spurð hvernig samstarfið við leikstjórann hafi gengið og hvort hann hafi verið sáttur við hennar hlut segist Halla vita til þess að Guadagnio hafi verið mjög ánægður með dansarana og dansinn í myndinni. Sjálf sé hún tiltölulega sátt við útkomuna. „Ég var svo heppin að fá boð á frumsýninguna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Það var mikil upplifun út af fyrir sig og mjög skrýtið og skemmtilegt að sjá sjálfa sig á hvíta tjaldinu. Ég sat með öndina í hálsinum og fylgdist gagnrýnin með allan tímann sem ég sést í myndinni,“ segir hún hlæjandi og segist vera spennt að sjá Suspiriu aftur og geta mögulega notið þess aðeins betur.
Þegar talið best að mögulegum framtíðarverkefnum í kvikmyndabransanum segist hún ekki vera með neina stóra drauma á því sviði. „Það verður bara að koma í ljós hvað gerist í því samhengi,“ segir hún róleg. „Persónulega hef ég mestan áhuga á að taka þátt í verkefnum sem eru gefandi og vekja forvitni mína og þar sem ég geti sjálf gefið eitthvað af mér til baka. Ég tek engu sem gefnu og öll þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur, stærri eða minni, eru mér jafnmikilvæg. Eins og sakir standa er ég í fæðingarorlofi með yndislegum dreng og er ekki mikið að spá í framtíðina heldur bara njóta tímans sem ég á með honum.“