Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-4.7 C
Reykjavik

„Skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er óhætt að segja að nýja barnabókin Milli svefns og Vöku sé öðruvísi en flestar barnabækur. Bókin er fyrsta bók fjölmiðlakonunnar Önnu Margrétar Björnsson og hönnuðarins Laufeyjar Jónsdóttur. Milli svefns og Vöku segir frá dularfullum hlutum sem gerast þegar myrkrið skellur á bókin og inniheldur svarthvítar teikningar eftir Laufeyju.

 

Milli svefns og Vöku er myndskreytt með fallegum teikningum eftir Laufeyju.

Spurð út í hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði segir Anna: „Ég var að segja Laufeyju frá því hvernig hún Ása Georgía, yngri dóttir mín sem var fjögurra ára þá, sakaði svokallaðan „leynigest” á heimilinu um allskyns dularfulla hluti sem hún sjálf kannaðist alls ekki við að hafa gert. Við höfðum lengi rætt það að það væri gaman að gera barnabók saman og þarna allt í einu small hugmyndin.  Við notuðum hugmyndina um leynigestinn hennar Ásu, hvernig hún lýsti honum í útliti og gjörðum og unnum út frá því. Úr varð Milli svefns og Vöku, skrýtin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga um myrkfælna stúlku og samband hennar við dularfulla veru sem býr á heimili hennar en enginn annar sér.“

Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég.

Að sögn Önnu er bókin skrifuð fyrir börn á aldrinum 6-9 ára en hún tekur fram að fólk á öllum aldri ætti að hafa gaman af henni. „Við vonum að foreldrar hafi gaman af að lesa hana og skoða en myndmálið er gífurlega mikilvægt í bókinni og myndirnar hennar Laufeyjar algjör listaverk.“

Anna kveðst alltaf hafa verið heilluð af myrkrinu og dularfullum sögum. „Mér fannst skemmtilegt að búa til sögu sem fjallar um myrkfælni, sem er eitthvað sem við flest könnumst við held ég. Það er svo oft gert lítið úr myrkfælni barna, þeim er sagt bara að vera ekki hrædd án nokkurra útskýringa. Það voru svo líka mörkin á milli draums og veruleika sem ég var að spá í með söguna, þau geta verið dálítið loðin fyrir börn og jafnvel fullorðna.“

„Vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar“

Anna og Laufey lögðu mikla áherslu á að bókin hefði einstakt útlit og í anda gamalla barnabóka. „Teikningarnar eru að sjálfsögðu frekar óhefðbundnar miðað við það sem gengur og gerist í dag,“ segir Laufey. Hún bætir við: „Teikningarnar vísa, líkt og sagan, til fyrri tíma og vekja vonandi upp nostalgískar tilfinningar hjá fullorðnum lesendum.“

- Auglýsing -
Milli svefns og Vöku segir frá Vöku sem þarf að sigrast á myrkfælni.

Laufey og Anna byrjaði að vinna að bókinni árið 2015. „Ég hóf að skapa persónurnar og myndheiminn 2015 og vann að þróun þeirra þegar færi gafst. Þó maður sé oft ólmur í að klára verkefni held ég að þessi langi tími hafi skilað sér í dýpri heim og þróaðri stíl, en það var örlítið ljúfsárt að leggja loks niður pensilinn og yfirlýsa verkið tilbúið.“

Laufey bendir svo á að aðalsöguhetjan er útsjónarsöm og hugrökk stelpa og það þótti þeim Önnu mikilvægt. „Í bókum finna ungir lesendur sér fyrirmyndir, ég er t.d. mjög þakklát að hafa alist upp með Línu Langsokk og Ronju Ræningjadóttur. En okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk, sem ræður eigin örlögum og treystir á gáfur sínar og útsjónarsemi til þess að leysa úr vandamálum.“

Okkur finnst staðalímyndir og skortur á kvenpersónum enn of áberandi í bókmenntum, því þótti okkur mikilvægt að skapa barnabók með hugrakka stúlku í aðalhlutverk.

Spurðar út í hvaða viðbrögð þær hafa fengið við bókinni segir Laufey: „Fyrstu viðbrögð hafa verið framar vonum. Að fá tækifæri til þess að spjalla við börn um bókina hefur verið alveg magnað. Þau eru sérstaklega forvitin um leynigestinn og veltu mörg því mikið fyrir sér hvað hann sé. Hvort hann sé krummi, hundur, mauraæta, skrímsli, draugur, strákur eða stelpa.“

- Auglýsing -

Anna tekur undir það og bætir við: „Þau kannast við ýmislegt í bókinni eins og að vera pínu hrædd við að fara að sofa og að sjá fatahrúgur breytast í eitthvað annað í myrkrinu…þau eru heilluð af þessari dularfullu veru og af þessum fallegu myndum í bókinni og finnst sagan skemmtileg, fyndin og stundum „krípí“.“

Mynd / Saga Sig

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -