Tölur sýna að heimilisofbeldi eykst talsvert í samkomubanni. Frá því það var sett á í fyrstu bylgju faraldursins jókst það um ríflega helming í höfuðborginni frá mánuðunum þar á undan. Þannig varð til dæmis 55 prósenta aukning á tilkynntu ofbeldi í apríl miðað við í febrúar þegar ekkert bann var í gildi.
Þetta sýna tölur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Heilt yfir þá hefur tilkynningum vegna heimilisofbeldis fjölgað um 10 prósent frá áramótum. Fjöldi tilkynninga rauk upp í apríl en þá voru sóttvarnaraðgerðir hvað harðastar í fyrstu bylgjunni. Síðan þá hefur fjöldinn gengið tilbaka en þessar tölur gefa tilefni til að óttast að nú þegar aðgerðir hafa á ný verið hertar hvort álíka stökk í heimilisofbeldi endurtaki sig.
Toppnum var náð í apríl en þá skráði lögreglan 82 tilvik heimilisofbeldis í höfuðborginni. Það var 28 prósenta aukning frá mánuðnum á undan þegar 64 tilvik voru skráð í mars. Samkomubann sóttvarnaryfirvalda var sett fyrir miðjan þann mánuð, nánar tiltekið 13. mars, enda má líka sjá aukningu frá mánuðnum á undan. Þrátt fyrir að bannið hafi verið sett á í fyrri hluta marsmánaðar varð 20 prósenta aukning á skráðu heimilisofbeldi í borginni í samanburði við febrúar.
Þriðja bylgja kórónuveirufaldursins hófst 11. september og hefur því verið haldið fram að hún gæti varið í nokkrar vikur til viðbótar. Ellefu hafa látist vegna sjúkdómsins hér á landi, fjöldi manns virðist hafa svipt sig lífi, atvinnuleysi erfitt mörgum, drykkja hefur aukist og efnahagskreppan bítur fjölda fólks. Skuggahliðar Covid eru því margar og alvarlegar þar sem aukið heimilisofbeldi í samkomubanni er ofarlega á lista.