Kynferðisbrotum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um nærri 30 prósent í samanburði við meðaltal síðustu þriggja ára. Í síðasta mánuði voru framin 23 kynferðisbrot í borginni samkvæmt skráningum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Sömu sögu er að segja af heimilisofbeldi en tilkynningum vegna þess til lögreglu fjölgaði um 25 prósent í samanburði við síðustu þrjú ár. Tilvik heimilisofbeldis eru nokkuð fleiri en í febrúar sinnti lögreglan 75 slíkum málum á meðan þau voru 54 í sama mánuði í fyrra. Þessar tölur koma fram í mánaðarskýrslu lögeglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Mannlíf hefur áður komið inn á hina skuggalegu aukningu heimilisofbeldis í Covid-faraldrinum. Tölur sýna að heimilisofbeldi jókst talsvert þegar samkomubann var í gildi. Frá því það var sett á í fyrstu bylgju faraldursins jókst það um ríflega helming í höfuðborginni frá mánuðunum þar á undan. Þannig varð til dæmis 55 prósenta aukning á tilkynntu ofbeldi í apríl miðað við í febrúar þegar ekkert bann var í gildi. Toppnum var náð í apríl en þá skráði lögreglan 82 tilvik heimilisofbeldis í höfuðborginni. Það var 28 prósenta aukning frá mánuðnum á undan þegar 64 tilvik voru skráð í mars.