Áfallamiðstöð verður opnuð í dag á Neskaupsstað vegna hjónanna sem féllu fyrir hendi manns sem nú er í varðhaldi. Fráfall hjónanna er annar sorgarviðburðurinn í vikunni. Ungur Norðfirðíngur lést af voðaskoti á gæsaveiðum á þriðjudag. Skuggi sorgar hvílir yfir bænum.
Í gærkvöld var haldin minningarstund í Norðfjarðarkirkju um manninn sem lést í slysinu. Söfnun er hafin til að styðja fjölskyldu hans.
„Þetta var fjölsótt og verulega falleg minningarstund sem Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson leiddu. Í lok hennar var ljós vonar tendrað og fólk minnt á að sýna kærleik og hlýju í samfélaginu á Austurlandi. Prestarnir bættu því við að kertin væru líka tendruð fyrir atburði dagsins,“ hefur Austurfrétt eftir Jóni Birni Hákonarsyni, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.
Áfallahjálp var veitt í safnaðarheimilinu eftir minningarathöfnina.
Árásarmaðurinn í máli hjónanna lagði á flótta úr bænum eftir atburðinn á heimili þeirra. Hann er heimamaður en ekki tengdur hjónunum að öðru leyti. Hann notaði bíl hjónanna og ók til Reykjavíkur þar sem hann var handtekinn í gærdag. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi játað á sig verknaðinn.