Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
2.3 C
Reykjavik

Skúli í Subway hæðist að Sveini Andra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi, sakar Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmann um síendurtekin handarbaksvinnubrögð. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Skúli Gunnar hefur sent frá sér.

Það rökstyður hann með því að lögmaðurinn hafi ekki mátt leggja fram kæru á hendur sér sem skiptastjóri félagsins EK 1923 og því hafi málinu verið vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Allur sakarkostnaður og þóknun verjanda Skúla Gunnars féll fyrir vikið á ríkissjóð eða tæpar 10 milljónir króna.

Skúli Gunnar Sigfússon. Mynd / Eggert Jóhannesson

Sjá einnig: Sýslumaður viðurkennir mistök

Ekki nóg með það heldur bendir Skúli Gunnar á að Sveinn Andri hafi nú þegar tapað í öllum meginatriðum máli gegn fyrirtæki sínu, Sjöstjörnunni ehf., og að fyrr í vetur hafi lögmaðurinn verið dæmdur til að borga þrotabúinu til baka því sem nemur á annað hundrað milljónir. Til að toppa allt saman fullyrðir Skúli Gunnar að Sveinn Andri geri allt til að tefja málin, meðal annars með því að kæra dómara fyrir að vera í nöp við sig, og virðist eigandi Subway á Íslandi bíða spenntur eftir úrskurði um hvort lögmanninum verði vísað frá sem skiptastjóra.

Yfirlýsing Skúla í heild sinni:

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi máli héraðssaksóknara gegn undirrituðum og fleirum. Undirritaður var ákærður fyrir greiðslur á fjórum lögmætum fjárkröfum í rekstri félagsins EK 1923, áður Eggert Kristjánsson hf.,sem talsvert hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.

Málið var höfðað í kjölfar kæru umdeilds skiptastjóra þrotabúsins, Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns, en í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að Sveinn Andri hafi ekki getað upp á sitt eindæmi lagt fram kæru í málinu. Lagaskilyrði fyrir útgáfu ákærunnar voru því ekki til staðar.

- Auglýsing -

Með úrskurði héraðsdóms var allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð sem og þóknun verjenda sem ákvörðuð var tæplega 10 milljónir króna.

Þetta er í annað sinn á fáum vikum sem í ljós koma handarbaksvinnubrögð Sveins Andra sem skiptastjóra þrotabúsins, en í síðasta mánuði tapaði þrotabúið í öllum meginatriðum máli gegn Sjöstjörnunni ehf., félags í eigu undirritaðs.

Á sama tíma hefur Sveinn Andri, án heimildar, tekið þóknun út úr þrotabúinu sem nemur eitthvað á annað hundrað milljónir króna. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í vetur að Sveini Andra bæri að endurgreiða þá þóknun að fullu. Beðið er úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort að víkja beri Sveini Andra frá sem skiptastjóra. Sveinn Andri hefur tafið það dómsmál með því að kæra dómara málsins til nefndar um dómarastörf. Auk þess hefur Sveinn Andri krafist þess að dómarinn verði úrskurðaður vanhæfur, enda hljóti honum að vera persónulega í nöp við sig þar sem hann hefur ekki úrskurðað í samræmi við kröfur Sveins Andra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -