„Ef okkur tekst ekki að grípa þetta tækifæri núna verður hér einfaldlega einokun aftur næstu tuttugu ár,“ sagði Skúli Mogensen fyrrverandi eigandi WOW air á Startup Iceland í morgun.
„Það er mikill misskilningur þegar Icelandair talar um að farmiðaverð WOW air hafi verið ósjálfbært. Það er ekki satt. Þeir hafa ósjálfbæra kostnaðarliði. Það er vandamálið og það er vegna þess að þeir hafa verið einir á markaði í nánast 70 ár.“
Skúli virðist staðráðinn í að endurreisa WOW og sagði verðlagningu vera stærsti ákvarðanaliðurinn þegar viðskiptavinir bóka flug. „Farsælustu flugfélög heims eru þau sem hafa lægsta grunnverðið.”
Hann vildi meina að WOW air hafi gert þetta vel og sagði nýtt flugfélag getað leikið það eftir. „Í samanburði við Icelandair gætum við selt miðana okkur 20-40% lægri en þeir á hverjum degi enn samt komið út í gróða,” sagði hann.
Skúli virðist stefna að því að endurreisa hið fallna flugfélag WOW air. Skúli kynnti ítarlegar hugmyndir sínar að því hvernig hið endurreista flugfélag myndi líta út en sagði þó ekki hreint út að til stæði að endurreisa flugfélagið. Það hefur hann þó sagt áður.
Einfaldari þjónusta og minna sætapláss
Hann nefndi að mikilvægt væri að þekkja markaðinn. Fæstir væru yfir 180 cm á hæð og í fínu lagi að fylla flugvélar af sætum. „Kostnaðurinn er sá sami.” Flestir farþegar myndu velja lágt verð fram yfir þægindi. Hann sagði stærstu mistök WOW hafa legið í þessu. Þeir hafi gert mistök með að bæta við premium þjónustuleiðum og breiðari sætum. „Ef þú greiðir 69 dollara fyrir miðann þá er það sem þú færð,“ sagði Skúli. „Þú mátt alveg greiða 690 dollara fyrir flugmiðann en þá geturðu flogið með einhverjum öðrum.“
Skúli sagði það nauðsynlegt að sækja starfskrafta erlendis. „Eina leiðin til þess að fá þetta til að virka er að vera með réttu blönduna. Við þurfum að vera með blöndu af áhöfnum, flugmönnum og tölvudeild. Sumt af starfsfólkinu á Íslandi. Sumt erlendis.“ Þá sagði hann Ísland vera of dýrt. „Við getum ekki verið samkeppnishæf samanborið við WIZZ air og Ryan Air. Þetta er staðreynd,“ sagði Skúli.
Líkti bransanum við bíó
Kvikmyndahús græða ekki á miðasölunni heldur sölu á poppi og kóki.” Skúli sagði sala á flugmiðum ættu að vera eins. Með því yrði öllum gert kleift að fljúga. „Hluti af markaðsetningunni okkar var að við myndum greiða þér fyrir að fljúga.” Hann vitnaði síðan í Michael O´Leary, forstjóra Ryan Air sem sagði að flugferðir verða ókeypis í framtíðinni.