„Í dag fæ ég tækifæri til að flytja ávarp á ráðstefnu Sorgarmiðstöðvarinnar sem ber yfirskriftina „Skyndilegur missir“. Lengi vel þótti það mikill persónulegur styrkleiki að bera ekki tilfinningar sínar á torg. Það þótti allt að hetjulegt að harka bara af sér og bera harm sinn í hljóði – en harmurinn minnkaði ekkert við það.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra sendi frá sér pistil á Vísi þar sem hann talar fyrir mikilvægi þess að nú sé búið að samþykkja lög um sorgarleyfi.
„Sem betur fer þá erum við fæst á þessum stað lengur. Og, með samþykki laga um sorgarleyfi í júní síðastliðnum, höfum við tryggt lagalegan rétt foreldra til þess að fá leyfi frá störfum í kjölfar barnsmissis og þar með meira svigrúm til að vinna úr sorg sinni.
Guðmundur segir þetta sé stórt skref fyrir réttindi fólks á vinnumarkaði.
„Með sorgarleyfinu gefst foreldrum einnig meira rými til að styðja eftirlifandi systkin við að takast á sorg sína og breyttar aðstæður. Það að foreldrar geti tekið sér leyfi frá störfum og greiðslur komi til móts við tekjutap er einnig stórt skref fyrir réttindi fólks á vinnumarkaði og er líklegt til að draga úr líkum á því að fólk detti út af vinnumarkaði.“
Eins og fyrr segir voru lögin samþykkt í júní og taka gildi um áramót.
„Lögin taka gildi um áramót. Rétturinn til sorgarleyfis verður sex mánuðir og greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna, þó að hámarki 600.000 kr. á mánuði. Fólk utan vinnumarkaðar eða sem er í minna en 25% starfi fær sorgarstyrk, þar á meðal námsmenn. Það er líka gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli yfir lengra tímabil.
Eitt af því sem mér þykir sérstaklega vænt um í lögunum er hvernig hugtakið foreldri er skilgreint, en það er gert með mun víðtækari hætti en í annarri löggjöf. Það geta því fleiri en tveir einstaklingar átt rétt á sorgarleyfi og er þar um sjálfstæðan rétt hvers foreldris að ræða. Þannig er sorg fjölskyldunnar í heild viðurkennd óháð fjölskyldugerð en með því er lögunum ætlað að koma til móts við fjölbreytt fjölskyldumynstur í íslensku samfélagi.
Um leið og við fögnum nýjum lögum um sorgarleyfi þá þarf að huga að næstu skrefum er varða aukin réttindi fólks vegna andláts nákominna. Er þar nærtækast að horfa til barnafjölskyldna og er greiningarvinna þess efnis þegar hafin í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.“