Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út á áttunda tímanum í gærkvöldi til að stilla til friðar í strætó, er til átaka kom milli bílstjóra og farþega. Samkvæmt dagbók lögreglu urðu minniháttar meiðsl í átökunum og ræddi lögregla bæði við bílstjóra og farþega með réttarstöðu sakbornings.
Lögregla hafði annars í nógu að snúast í nótt. Flest brotin sem hún hafði afskipti af voru í tengslum við ölvunarakstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna, en einnig í tengslum við ólöglega áfengissölu og vörslu fíkniefna. Í síðastnefnda tilvikinu voru málsaðilar allir undir átján ára aldri og foreldrar viðkomandi því boðaðir á lögreglustöðina þar sem málinu lauk með skýrslutöku.