Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Slapp frá Ítalíu á síðustu stundu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óperusöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson fékk á laugardagskvöldið símtal um að hann yrði fastur á Ítalíu í mánuð, ef hann kæmi sér ekki í burtu í snatri.

 

„Ég hef sennilega slegið persónulegt met í að pakka,“ segir óperusöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson, sem um helgina slapp naumlega út af svæði sem til stóð að loka á Ítalíu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Bjarni, sem hafði verið við æfingar í borginni Parma í þrjár vikur, pakkaði öllu sínu dóti í tösku á fjórum til fimm mínútum og hraðaði sér út á lestarstöð, þaðan sem hann komst til borgarinnar Bologna, sem var utan þess svæðis sem lokað var um helgina. Hann er nú kominn heim og er einkennalaus í sjálfskipaðri sóttkví.

Til stóð að frumsýna verkið Pelléas et Mélisande eftir Debussy á morgun, laugardaginn 14. mars í hinu fornfræga óperuhúsi Teatro Regio í borginni Parma. Fyrir vikið var farið að styttast mjög í æfingatímabilinu og sýningin nánast tilbúin. Bjarni segir að þegar hann hafi komið til Ítalíu, fyrir bráðum fjórum vikum, hafi vel verið fylgst með öllum þeim komu til landsins. Ólíkt því sem hann upplifði í Þýskalandi, þaðan sem hann fór til Ítalíu, voru allir gestir hitamældir við komuna til landsins. „Það var talað um að ekkert ríki í Evrópu passaði betur upp á veikt fólk kæmi ekki til landsins.“ Veiran var lítið farin að breiðast út á þessum tíma.

Samkomu- og nálægðarbönn

Bjarni segir að þegar fyrstu smit komu fram á Ítalíu hafi allir sem að óperunni komu látið sér fátt um finnast. Fáeinum dögum síðar hafi fyrsta smitið greinst í Parma. Þá hafi runnið upp fyrir honum að þetta gæti valdið vandræðum hvað sýninguna varðaði. „Maður sá að þetta varð alltaf meira og meira og staðan varð ljósari. Fyrr en varði voru menn farnir að ræða um samkomubann,“ útskýrir Bjarni. Hann bendir á að söngvarar séu samningsbundnir óperuhúsum og geti ekki látið sig hverfa þegar þeim sýnist svo. „Sú stemning var heldur ekki ríkjandi.“

Fljótlega var farið að tala um að sýningunum yrði hugsanlega aflýst vegna útbreiðslu veirunnar. „Svo var það fyrstu vikuna núna í mars sem samkomubann tók gildi á þessu svæði sem við vorum á,“ segir Bjarni. Óperuhúsið hafi hins vegar ákveðið að halda áfram með æfingarnar, upp á von og óvon. „Svo komu reglur sem sögðu að enginn mætti vera nær öðrum en einum metra. Síðan kom í ljós að hljómsveitin væri of stór fyrir hljómsveitargryfjuna.“ Þá voru góð ráð dýr.

- Auglýsing -

Bjarni segir að um tíma hafi staðið til að streyma sýningunni á Netinu en segir að það hefði þá þurft að gerast án 70 manna hljómsveitar. Rætt hafi verið um að nota píanó í staðinn en síðustu æfingarnar, áður en öllu var lokað, voru einmitt aðeins með píanói. Hljómsveitin mátti ekki æfa vegna nálægðar.

„Ég tók engan séns“

Það var eftir eina slíka æfingu, síðastliðinn laugardag, sem síminn hringdi hjá Bjarna, sem slakaði á í íbúð sinni. Klukkan var um níu að kvöldi. Umboðsmaðurinn var á línunni. „Hann sagði mér að óperuhúsið hefði verið að hafa samband við alla umboðsmenn og söngvara um að setja ætti borgina og stórt svæði í kring í sóttkví í heilan mánuð. Þeir sem gætu og vildu ættu að yfirgefa borgina í snatri  á meðan það væri löglegt.“

„Ég tók engan séns. Ég hafði verið að þvo föt fyrr um daginn og ég henti þeim öllum ofan í tösku – rennblautum.“

- Auglýsing -

Bjarni lét ekki segja sér þetta tvisvar. „Ég tók engan séns. Ég hafði verið að þvo föt fyrr um daginn og ég henti þeim öllum ofan í tösku – rennblautum. Ég pakkaði öllu mínu dóti á fjórum til fimm mínútum og flýtti mér á lestarstöðina upp á von og óvon,“ segir Bjarni um næstu mínútur. Úr varð að hann komst inn í lest sem var á leið til Bologna, sem var utan lokunarsvæðisins. „Brautarpallarnir fylltust smám saman eftir því sem tíminn leið. Það var samt ekki komið eitthvert panikk. Þeir félagar mínir sem fóru úr borginni seinna töluðu um að það hefði verið töluvert uppnám þá,“ segir Bjarni.

Hann segir að óvissan, frá því símtalið barst honum og þangað til hann var kominn út fyrir lokunarsvæðið, hafi verið óþægilegt. „Við vissum ekkert. Þetta var klukkutíma ferðalag með lestinni, sem stoppaði í þremur borgum innan lokaða svæðisins á leiðinni. Við samferðamaður minn vissum ekki hvort tilkynnt yrði um að lestin færi ekki lengra,“ segir hann um upplifunina.

Flugfarþegi frá Mílanó á Ítalíu hitamældur á flugvelli í Ungverjalandi. Mynd /EPA

Ef símtalið hefði ekki borist Bjarna í tæka tíð þá hefði hann lokast inn í landinu í heilan. „Ég hefði þurft að finna mér íbúð hér úti til að leigja í heilan mánuð,“ segir Bjarni. Það hefði líka verið óþægileg tilfinning ef hann hefði veikst á Ítalíu, fjarri vinum og ættingjum.

Mikið högg fyrir innkomu verktaka

Óperusöngvarar í lausamennsku eru iðulega verktakar og fá fyrst og fremst greitt fyrir sýningar, en lítið eða ekkert fyrir æfingatímabil. Það að ákveðið hafi verið að aflýsa tveimur sýningum í Parma væri mikill fjárhagslegur skellur fyrir Bjarna ef óperuhúsið hefði ekki gefið það út að til stæði að greiða fólki samt. „Við sem erum verktakar fáum engar bætur ef sýningar falla niður. Þetta er gífurlegur tekjumissir sem við verðum fyrir og hann er auðvitað alvarlegur fyrir okkur. En sem betur fer er stefnt að því að við fáum greitt fyrir þessa vinnu á Ítalíu, þó að það verði ekki sýnt.“ Hann segir að til standi að halda tvær sýningar á þessu sama verkefni í Piacenza á Ítalíu í apríl auk þess sem fram undan séu hjá honum verkefni í Þýskalandi í maí og Tókýó í júní. Mikil óvissa sé uppi um þessi verkefni, eins og gefur að skilja. „Eins og hjá mörgum þá getur þetta orðið þungt högg fyrir innkomuna,“ útskýrir Bjarni.

Frá Bologna flaug Bjarni til London. Hann segir aðspurður að þar hafi enginn viðbúnaður verið, þó að vélin væri full af fólki frá svæði á Ítalíu sem var mjög nálægt skilgreindu hættusvæði. Frá London flaug hann með Wissair til Íslands. Um borð í þeirri vél voru engar ráðstafanir gerðar til að bregðast við hugsanlegu smiti. „Maður gat hvergi keypt grímu eða sótthreinsibúnað. Maður reyndi bara að vera skynsamur,“ segir hann og bætir við að hann hafi persónulega ekki miklar áhyggjur af því að veikjast. „En auðvitað vill maður ekki eiga þátt í því að þessi veira berist eitthvað lengra. Þetta ástand höfðar til ábyrgðartilfinningar hjá manni.“ Hann lýsir því að Íslendingar virðast taka viðvörunum yfirvalda alvarlegar en Ítalir. Á Ítalíu hafi hann litla breytingu séð á hegðun fólks. Þar ríki ef til vill ekki sama traustið í garð stjórnvalda og hér.

Bjarni Thor í hlutverki blinda kóngins Arkel.

Bjarni skráði sig hjá Almannavörnum við komuna til landsins og fór í sjálfskipaða sóttkví. „Konan fyllti ísskápinn og flutti út áður en ég kom,“ útskýrir Bjarni. Hann ber sig vel í einangruninni. „Við sem erum í þessu starfi erum oft ein að ferðast um heiminn og erum vön einverunni. Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir að vera heima, inni á mínu heimili og með fjölskyldu og vini skammt undan. Ég var heppinn að komast heim í tæka tíð og lokast ekki inni. Þetta kennir manni að maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -