Lögreglunni barst tilkynning um slys í Laugardalnum snemma í gærkvöldi. Þar hafði einstaklingur fallið í jörðina og slasast. Ekki er tekið fram í dagbók lögreglu hvernig slysið átti sér stað en var hann fluttur á slysadeild til skoðunar. Brotist var inn í fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur og fór lögregla á vettvang um klukkan hálf fjögur í nótt. Þjófurinn fannst skammt frá og gisti hann bak við lás og slá.
Fyrr um kvöldið hafði lögregla afskipti af ökumanni í Hlíðahverfi. Undarlegt aksturslag vakti athygli og var hann því grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Þegar maðurinn var stöðvaður kom í ljós að hann hafði verið sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu. Þá var lögregla kölluð út í sundlaug í Grafarvogi. Þar hafði einstaklingur runnið og dottið á bakka laugarinnar og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Alls voru sex ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna hraðaksturs eða aksturs undir áhrifum vímuefna.