Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Slysaðist á heimsmeistaramót

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafía Kvaran byrjaði að hlaupa hindrunarhlaup fyrir rúmu ári og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum keppnum í Spartan-hlaupi í Bandaríkjunum. Hún er komin í fremstu röð, varð fjórða í sínum aldursflokki á heimsmeistaramótinu í sumar, en hún er rétt að byrja.

 

„Ég hef alltaf verið í íþróttum,“ segir Ólafía. „Ég held ég sé búin að prófa allt. Lengst var ég í handbolta, fyrst með Aftureldingu og svo með Fram. Ég spilaði líka með landsliðinu um tíma, held ég hafi náð að spila fjóra A-landsleiki, en ég hætti þegar ég var 25 ára. Ég eignaðist elsta strákinn minn 1994 og byrjaði eitthvað að spila eftir það en hætti svo alveg.“

Ólafía er 48 ára gömul, á þrjá syni og er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún segist reyndar alltaf nota titilinn hjúkrunarkona þegar hún kynnir sig, henni finnist það miklu hlýlegra. Hún útskrifaðist 1996 og vann lengst af á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi en eftir nokkurra ára dvöl erlendis hóf hún störf í Læknahúsinu árið 2008 og starfar þar enn.

„Þar er ég bara í dagvinnu,“ útskýrir hún. „Það æxlaðist nefnilega þannig að á meðan við bjuggum í Bretlandi, í rúm þrjú ár, var ég ekkert að vinna úti, var að sinna heimilinu og börnunum. Maðurinn minn, Friðleifur Friðleifsson, var að vinna þar fyrir Iceland Seafood og ferðaðist mjög mikið og þegar maður býr erlendis hefur maður náttúrlega engan til að passa og hjálpa sér þannig að það var eiginlega ekki um annað að ræða. Svo æxluðust málin þannig að ég og strákarnir fluttum heim einu og hálfu ári á undan honum og þá var auðvitað ekki um það að ræða að ráða sig í vaktavinnu, ein með þrjú börn, þannig að ég sem sagt réði mig í dagvinnu í Læknahúsinu.“

Æfir fimm til sex sinnum í viku

Spurð hvort hún hafi ekki kunnað við sig í Bretlandi segir Ólafía að það hafi verið mjög þroskandi að búa erlendis og hún hafi haft mjög gott af því en hún og synirnir hafi öll verið sammála um að hafa dvölina ekki lengri. Í Bretlandi hafði Ólafía byrjað að hlaupa til að halda sér í formi og hún hélt því áfram eftir að heim var komið og þá byrjaði hún að sækja æfingar í Boot Camp.

- Auglýsing -

„Þar er ég búin að æfa núna síðustu tíu árin,“ segir hún. „Og ég held ég hafi bara aldrei verið í eins góðu formi og ég er núna. Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa ekki þekkt Boot Camp fyrr.“

Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.

Beðin um að útskýra hvað þjálfunin í Boot Camp gengur út á er Ólafía snögg til svars. „Boot Camp er náttúrlega bara nafnið á líkamsræktarstöðinni,“ útskýrir hún. „En æfingakerfið sem þau vinna með gengur mikið út á að vinna með eigin líkamsþyngd, létta sandpoka eða ketilbjöllur og þetta eru alltaf góðir keyrslutímar í klukkutíma í senn. Ofsalega fjölbreytt og skemmtilegt æfingakerfi þar sem við æfum styrk, þrek, þol og úthald allt í bland. Enginn tími er eins og alltaf eitthvert óvænt „twist“ í boði, þetta og andinn og stemmingin er það sem ég sæki í. Ég fer þangað tvisvar til þrisvar í viku en þar fyrir utan hleyp ég tvisvar í viku, fer í teygjutíma og reyni að blanda öllu saman. Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.“

Ég viðra þá skoðun mína að svona ströng æfingaprógrömm virðast vera ávanabindandi og Ólafía samþykkir það með semingi. En hvað er það sem fólk verður svona heltekið af?

- Auglýsing -

„Ég er ekki heltekin af þessu,“ segir hún og hlær. „Ég er það heppin að ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó. Ég fæ stundum þá spurningu frá fólki sem þekkir mig ekki hvort þetta sé ekki bara megrunaraðferð en ég er meira að stunda líkamsrækt til að vera í góðu formi og geta tekist á við allt sem mig langar til. Ef mig langar að prófa að kafa eða fara á kajak eða eitthvað slíkt þá veit ég að ég get það og mér finnst það mikið frelsi að hafa burði til að prófa allt.“

Ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó.

Aldrei litið á sig sem hlaupara

Ólafía hefur keppt í þrekmótaröðinni í gegnum árin og fyrir nokkrum árum byrjaði hún að hlaupa maraþon og taka þátt í utanvega- og hindrunarhlaupum um allan heim. Hvernig gerðist það?

„Eins og ég sagði þá byrjaði ég að hlaupa meðan ég bjó í Bretlandi en ég hef aldrei litið á mig sem hlaupara þótt ég sé búin að hlaupa fimm maraþon síðan 2011. Það byrjaði í rauninni, eins og allt sem ég byrja á, sem einhvers konar áskorun. Þá fór hópur úr Boot Camp og maðurinn minn, sem er rosalega mikill hlaupari, í maraþon í Berlín og ég ákvað að fara bara líka. Í maraþonheiminum eru sex stór hlaup, sem kallast „the big six“, og um leið og við vorum búin með eitt maraþon vorum við ákveðin í að fara í þau öll sex. Þá var áskorunin hafin. Ég hef í rauninni haldið mér í hlaupaformi með því að taka svona eitt maraþon á ári. Þá fylgi ég hlaupaprógrammi í átta til tíu vikur fyrir hlaup en þess á milli æfi ég bara eins og ég er vön.“

Ég spyr hvort þau hjónin hlaupi þá ekki mikið saman og það þykir Ólafíu óbærilega fyndin spurning.

„Það halda það margir en það er mikill misskilningur,“ segir hún. „Við æfum aldrei saman. Hann er miklu betri hlaupari en ég og ég á bara ekki séns á að hlaupa með honum. Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst. En mér dettur ekki í hug að hlaupa með honum. Ég verð bara fúl yfir því hvað hann er miklu fljótari en ég ef ég geri það.“

Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst.

Er þetta lífsstíll sem öll fjölskyldan hefur tileinkað sér? Hugsiði mikið um það hvað þið borðið og hversu mikið þið hvílið ykkur og svo framvegis?

„Jaaa, við gerum það nú ekkert meðvitað,“ segir Ólafía. „Þegar maður var yngri gat maður bara borðað hvað sem var án þess að finna fyrir því, en með aldrinum hef ég ómeðvitað sneitt fram hjá alls konar mat sem ég veit að mér líður illa af. En að því sögðu þá borða ég sjúklega mikið og borða í rauninni allt, en vissulega hefur mataræðið breyst. Ég held það gerist bara ómeðvitað þegar maður lærir á það hvað fer vel í mann og hvað ekki. Ég neita mér samt aldrei um neinn mat sem mig langar í.“

Ólafía er 48 ára gömul, móðir þriggja sona og hjúkrunarfræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hún ratað í fréttir vegna frábærrar frammistöðu í hindrunarhlaupum á alþjóðlegum vettvang.

Þannig að þessi íþróttaiðkun og heilbrigði lífsstíll eru ekki trúarbrögð fyrir þér?

„Nei, þetta snýst eiginlega bara um það hvað manni líður vel af þessu,“ segir Ólafía ákveðin. „Maður er kannski extra stilltur tveimur til þremur vikum fyrir stórar keppnir, en þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.“

Hún viðurkennir þó að allt heimilislífið sé meira og minna undirlagt af íþróttaiðkun fjölskyldunnar, synirnir stunda allir íþróttir og Ólafía segir löngu orðið vonlaust mál að safna fjölskyldunni saman á matmálstímum og borða saman, það sé alltaf eitthvert þeirra á æfingu einhvers staðar og mjög sjaldgæft að þau séu öll heima á sama tíma.

Þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.

„Allar reglur um fasta kvöldmatartíma hafa hliðrast til eftir að strákarnir urðu stærri,“ segir hún og hlær. „En við erum öll að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, svo það er ekki mikið mál.“

Krabbameinsgreiningin áskorun sem varð að taka

Árið 2015 komst Friðleifur, eiginmaður Ólafíu, í fréttir eftir að hafa lent í óútskýrðu hjartastoppi í tvígang. Það stóð ekki á fólki að kenna hlaupunum um, en enn hefur engin skýring fundist. Fyrra hjartastoppið átti sér stað á heimili hjónanna og Ólafía, sem er alvön aðstæðum sem þessum í sínu starfi, náði að bjarga honum með hjartahnoði.

„Hann er auðvitað últrahlaupari og þetta sumar, 2015, hafði hann verið að hlaupa mjög mikið,“ segir Ólafía.

„Við tókum meðal annars þátt í áheitaverkefni fyrir Útmeða nokkrum vikum fyrr þar sem hlaupið var hringinn í um landið. Við vorum tíu manns í rútu og skiptumst á um að hlaupa, en hann hljóp eðlilega mjög mikið þá. Hafði líka hlaupið ellefu ferðir í einu í Esjuhlaupinu þetta sumar og eðlilega héldu allir að hann hefði bara „hlaupið yfir sig“, það væri sko ekkert hollt og svo framvegis. En þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum. Það var strax settur í hann bjargráður og þetta hefur aldrei gerst aftur.“

Þótt hjartað hafi ekki stoppað aftur var veikindasögu Friðleifs ekki þar með lokið. Í ársbyrjun 2018 greindist hann með illkynja krabbamein sem hann hefur glímt við síðan.

Þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum.

„Hann hafði fundið hnúð á hálsinum í einhvern tíma en frestaði því að láta taka hann, enda var búið að stinga á þessu og úrskurða að það væri ekki hættulegt en hann skyldi samt láta fjarlægja það,“ útskýrir Ólafía.

„Í byrjun janúar fór hann svo í aðgerð og allt leit vel út, en svo þegar hann mætti í saumatöku viku seinna var honum sagt að þetta væri illkynja krabbamein og þá fór hið týpíska ferli í gang. Hann var sendur erlendis í jáeindaskanna og það fannst einhver pínulítill blettur í kokinu og þá byrjaði hann strax í „intensívri“ geislameðferð sem hann kláraði í vor og í eftirliti núna í haust var hann úrskurðaður krabbameinslaus.“

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum.

Lenti fyrir tilviljun á heimsmeistaramóti

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum síðasta sumar. Það ævintýri byrjaði reyndar hálfpartinn óvart eins og hún fullyrðir að sé frekar regla en undantekning í hennar lífi.

„Árið 2017 bauðst mér og tveimur vinum mínum sem ég hef æft með í mörg ár að koma og keppa á heimsmeistaramóti í Spartan-hlaupi í Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Ég held að við höfum verið valin af því að sú sem forsvarsmenn Spartan töluðu við til að fá íslenska þátttakendur þekkti okkur öll og hafði æft með okkur, þannig að þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap. En allavega mættum við þarna til Lake Tahoe alveg blaut á bak við eyrun. Höfðum aldrei farið í Spartan-hlaup og höfðum ekki einu sinni vitað af þessu hlaupi fyrr en fjórum til fimm vikum áður en mótið hófst. Þetta var samt sjúklega spennandi og gaman og við kepptum í tvo daga.

Þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap.

Annan daginn hlupum við sem einstaklingar einhverja 29 kílómetra í fjöllunum þarna og yfir fullt af hindrunum. Seinni daginn kepptum við fyrir hönd Íslands í liðakeppni. Svo kom maður í mark, hafði aldrei gert þetta áður, en var samt samkeppnishæfur við hitt fólkið sem hafði gert þetta árum saman og var búið að vinna sér inn rétt til þátttöku á heimsmeistaramóti. Þarna kviknaði einhver neisti og ég fann að ég vildi gera meira af þessu þannig að fljótlega eftir þetta fór ég að tala um að fara að æfa Spartan-hlaup og reyna að komast á fleiri mót. Þetta var svo skemmtilegt.“

Ólafía skráði sig í Spartan-hlaup í Boston í mars og gekk svo vel að hún fann að ekki varð aftur snúið.

„Ég endaði þarna í þriðja sæti í mínum aldursflokki og vann mér þar með inn rétt til að taka þátt í meistarakeppni Norður-Ameríku í ágúst. Þannig að ég var strax komin með annað hlaup til þess að stefna að. Frá því í mars og fram í ágúst heyrði ég í ýmsum vinum mínum um það hvort þeir vildu kannski prófa að koma með og það voru allir mjög spenntir.

Við maðurinn minn vorum búin að bóka ferð til Dallas í október til að fara á tónleika og ég ætlaði náttúrlega að fara í eitt Spartan-hlaup í leiðinni. Þegar ég fór að segja fólki frá því heyrði ég strax að það var gríðarlegur áhugi á að prófa þetta. Það vatt svo upp á sig þannig að ég fór og talaði við Vita-ferðir um hvort þeir gætu sett saman pakka fyrir mig fyrir þá sem hefðu áhuga á að koma. Ég setti svo auglýsingu í bundnu máli inn á Facebook-síðu Boot Camp á fimmtudegi og ferðin var uppseld strax eftir helgina. Það endaði með því að við vorum fimmtíu og fimm manns frá Íslandi sem mættum í þetta hlaup. Það var rosalega gaman.“

Engin leið að hætta

Eftir að hafa fundið fyrir þessum gríðarlega áhuga á Spartan-hlaupum hjá Íslendingum ákvað Ólafía að fara á þjálfaranámskeið hjá Spartan í New York í lok apríl og er sem sagt komin með Spartan-þjálfararéttindi, sú eina á Íslandi sem ber þann þjálfaratitil. Ekki nóg með það heldur skellti hún sér á framhaldsnámskeið í byrjun ágúst og lauk því með glæsibrag. En ævintýrið var rétt að byrja.

„Þarna var loksins komið að meistaramóti Norður-Ameríku sem ég hafði áunnið mér rétt til að taka þátt í,“ segir hún og það er auðheyrt að þessi hlaup eiga hug hennar allan.

„Það var í lok ágúst í West-Virginia og ég var eiginlega ákveðin í því að það yrði líklega síðasta hlaupið sem ég tæki þátt í enda mjög sátt við árangurinn minn að ná inn á þetta mót. Svo gekk mér bara svo rosalega vel á þessu móti, lenti í fimmta sæti í mínum aldursflokki og með því var ég komin með þátttökurétt á heimsmeistaramótinu, svo það kom auðvitað ekki til greina að hætta þarna,“ segir hún og skellihlær.

„Heimsmeistaramótið var svo haldið í Lake Tahoe mánuði seinna, í lok september, og þar lenti ég í fjórða sæti í mínum aldursflokki. Þannig að ég er hrikalega ánægð með hvað þetta eina hlaup sem ég ætlaði að prófa þarna í mars hefur leitt mig út í. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi og engin leið að hætta.“

Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi.

Ólafía lætur sér þó ekki nægja að hlaupa sjálf. Eftir móttökurnar sem hópferðin til Dallas fékk dreif hún í því að koma á fót námskeiðum í Spartan-hlaupum þar sem hún er með Spartan-þjálfararéttindi og þó nokkur fjöldi Íslendinga tók þátt í Spartan-hlaupinu sem haldið var hérlendis í desember. Ólafía gengst við því að það sé kannski aðallega hennar áhugi sem hafi komið þessari hreyfingu af stað, hún sé búin að smita ansi marga af Spartan-bakteríunni enda valin af Spartan til að vera fulltrúi þeirra á Íslandi. En hvað er það helsta sem uppgötvun Spartan-hlaupanna hefur kennt henni sjálfri?

„Það er svo margt,“ segir hún hugsi. „Þetta hefur verið óskaplega lærdómsríkt og þroskandi. Ég var ekki vön að ferðast svona mikið ein og alls ekki vön að standa fyrir framan fólk, stjórna æfingum og tjá mig. Þannig að ég hef haft mjög gott af þessu og þetta hefur styrkt mig í þeirri trú að maður geti það sem maður ætlar sér ef mann virkilega langar til þess og leggur hart að sér.“

Árið 2019 undirlagt af Spartan

Svona í upphafi árs er við hæfi að enda viðtalið á hinni hefðbundnu spurningu um hvort Ólafía hafi strengt áramótaheit og í hverju það felist þá.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Ég strengi aldrei áramótaheit,“ segir hún ákveðin. „En það þýðir ekki að það sé ekki ýmislegt fram undan á nýja árinu. Ég er núna að skipuleggja næstu ferðir á Spartan-hlaup og stefnan er að fara bæði vor- og haustferð. Þátttakendur koma auðvitað aðallega úr Boot Camp-hópnum en það eru svo sannarlega allir velkomnir. Fólk heldur kannski að það þurfi að vera í einhverju ofurformi til að geta tekið þátt í svona hlaupum en ég held því fram að það geti þetta allir, með því að gera það á eigin forsendum. Það þurfa ekkert allir að keppa eins og ég hef verið að gera.

Meirihlutinn af iðkendum Spartan-hlaupa gerir þetta bara sér til gamans og heilsubótar og ég er sem sagt að vinna í því núna að setja saman þessar ferðir. Svo ætla ég persónulega að sjálfsögðu líka að hlaupa eitthvað og keppa. Ég þarf til dæmis auðvitað að keppa aftur á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Spartan-hlaupadagatalið fyrir árið er reyndar nýkomið út þannig að ég er ekki búin að negla niður ákveðin hlaup en ég mun svo sannarlega hlaupa á nýja árinu. Stefnan er að árið 2019 verði algjörlega undirlagt af Spartan!“

Þú hljómar mjög ákveðin í að ná árangri, ertu sem sagt mikil keppnismanneskja?

„Já, ég er keppnismanneskja,“ segir Ólafía og glottir. „Ég þarf ekkert endilega að vinna en ég þrífst svolítið á því að keppa við aðra og standa mig vel. Ég allavega geri alltaf mitt besta og það dugar mér að vita það sjálf.“

Það er nokkuð ljóst að við höfum ekki heyrt það síðasta frá Ólafíu sem keppnismanneskju í Spartan og það verður spennandi að fylgjast með afrekum hennar á nýja árinu.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -